143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

ÖSE-þingið 2013.

357. mál
[19:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir skýrslu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2013. Núna horfir ÖSE-þingið og ÖSE fram á það að það eru komin 40 ár síðan Helsinki-samkomulagið var samþykkt 1974 og því er ástæða til að halda upp á það og kanna hvort gengið hafi verið rétt fram á veginn. ÖSE er stofnað til þess að standa vörð um öryggi og frið í Evrópu og innan þeirra landa sem ÖSE nær til, sem spannar allt frá Kanada og austur til Mongólíu.

Menn vilja leggja áherslu á að hernaðarlegt gagnsæi verði aukið. Í því felst til dæmis að menn viti af flugi, viti af því þegar flogið er yfir land hver annars, og að um það sé sátt og gegnsæi í því hvernig menn fara með þessar upplýsingar.

Á sviði efnahags- og umhverfismála er kallað eftir bindandi takmörkunum á losun gróðurhúsalofttegunda og nýjum gjöldum á fjármálaviðskipti til að gera skammtímaspákaupmennsku á fjármálamörkuðum kostnaðarsamari. Þá er mælst til þess að aðildarríkin nýti hvata á sviði græns vaxtar í stað niðurskurðaraðgerða og hugi að nýjum öryggisáskorunum líkt og þeim sem tengjast loftslagsbreytingum. Aðildarríkin eru enn fremur hvött til að tryggja almenningi aðgang að réttarkerfi, réttláta málsmeðferð fyrir dómi og tjáningarfrelsi, þar á meðal blaðamönnum, bloggurum og aðgerðasinnum. Loks eru aðildarríkin hvött til að virða réttarríkið og sjálfstæði dómstóla, sleppa pólitískum föngum og bera sakir af pólitískum föngum og leyfa þeim að fá heimsóknir frá alþjóðlegum stofnunum eins og ÖSE.

Í ályktun um ástandið í Sýrlandi sem var tekið sérstaklega fyrir á ársfundinum var kallað eftir því að valdbeitingu gegn almennum borgurum yrði hætt.

ÖSE-þingið tekur einnig þátt í því að þróa leiðir til að koma í veg fyrir ágreining milli ríkja og stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana á því svæði sem starfsemi ÖSE tekur til. Að lokum hefur kosningaeftirlitið verið eitt helsta verkefni þingsins frá upphafi. Sú starfsemi hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. ÖSE-þingið á þar í samvinnu við lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE-stofnunarinnar — þetta eru tvær aðgreindar stofnanir, annars vegar ÖSE-stofnunin og hins vegar ÖSE-þingið — um kosningaeftirlit. Nokkur ágreiningur hefur ríkt um verkaskiptingu milli stofnananna þrátt fyrir samstarfssamning milli þeirra frá árinu 1997. Einnig á ÖSE-þingið samvinnu um kosningaeftirlit við aðrar fjölþjóðlegar þingmannasamkundur, eins og Evrópuráðsþingið og Evrópuþingið.

Íslandsdeild ÖSE-þingsins var þannig skipuð að aðalmenn fram að þingkosningum voru Róbert Marshall formaður frá þingflokki Samfylkingar, Björn Valur Gíslason varaformaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Pétur H. Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Lúðvík Geirsson, Árni Þór Sigurðsson og Tryggvi Þór Herbertsson.

Í kjölfar kosninganna varð breyting á og aðalmenn voru kosnir Elsa Lára Arnardóttir, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Pétur H. Blöndal, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Guðmundur Steingrímsson, þingflokki Bjartrar framtíðar. Varamenn eru Frosti Sigurjónsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Björt Ólafsdóttir. Vilborg Ása Guðjónsdóttir var og er ritari Íslandsdeildar.

Vetrarfundur ÖSE-þingsins var í Vínarborg 21.–22. febrúar 2013. Þar voru mörg mál rædd. Margir málsmetandi menn komu á fundinn og ávörpuðu hann. Kannski er helst frá því að segja að síðari sameiginlegan fund nefndanna ávörpuðu Lamberto Zannier, sendiherra og framkvæmdastjóri ÖSE, og dr. Hedy Fry, sérstakur fulltrúi ÖSE-þingsins á sviði jafnréttismála. Þá átti sér einnig stað sérstök umræða um ástandið í Sýrlandi, á Sahel-svæðinu og í Norður-Afríku. Sýrland var mikið á dagskrá hjá ÖSE-þinginu á árinu 2013.

Ársfundur ÖSE þingsins fór fram í Istanbúl 28. júní til 3. júlí 2013. Í upphafsávarpi sínu kallaði Wolfgang Grossruck, starfandi forseti ÖSE-þingsins, eftir aukinni þátttöku þingmanna í starfsemi ÖSE allan ársins hring, það væri undirstaða þess að ÖSE-þingið gæti haft alþjóðlegt hlutverk. Ahmet Davutolu vakti athygli á þörfinni á sáttmála eins og Helsinki-sáttmálanum í Miðausturlöndum og í Norður-Afríku og forseti tyrkneska þingsins, Cemil Çiçek, lagði áherslu á að þingmenn sæju til þess að endurskoðunar- og umbótaferlið Helsinki +40, sem fer fram hjá ÖSE í tilefni 40 ára afmælis stofnunarinnar árið 2015, væri framkvæmt á upplýstan hátt.

Málefnanefndirnar þrjár tóku fyrir fram ákveðin mál til umfjöllunar með áherslu á yfirskrift ársfundarins, Helsinki +40. Hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir tók þátt í störfum 1. nefndar um stjórn- og öryggismál. Nefndin samþykkti meðal annars ályktanir um aukið hernaðarlegt gagnsæi, sem ég nefndi áðan, og öfluga alþjóðasamninga um vopnatakmarkanir. Þá kallaði hún sérstaklega eftir því að þjóðþing og ríkisstjórnir fullgiltu sáttmála Sameinuðu þjóðanna um vopnaviðskipti, hæfu á ný samningaviðræður um hefðbundinn herafla í Evrópu og gerðu breytingar á Vínarskjalinu frá 1999 þannig að ríki þyrftu að deila meiri upplýsingum um heræfingar sínar. Í ályktuninni er einnig hvatt til þess að áframhald verði á starfsemi ÖSE í Bakú, skrifstofur í Jerevan og Moldóvu verði styrktar enn frekar og opnuð verði aftur skrifstofa í Georgíu. Starfsemi þar var hætt árið 2008. Þetta er mjög brýnt núna í tengslum við óróann á þessu svæði.

Pétur H. Blöndal tók þátt í störfum 2. nefndar um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál en þar var meðal annars rætt og ályktað um bindandi takmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda, upptöku nýrra gjalda sem mundu gera spákaupmennsku á hlutabréfamarkaði kostnaðarsamari og notkun hvata til að stuðla að umhverfisvænum hagvexti í stað þess að grípa einungis til niðurskurðar í efnahagsmálum. Í ályktun nefndarinnar er hvatt til alþjóðlegs samstarfs um umhverfis- og efnahagslegar áskoranir og að ÖSE geri efnahags- og umhverfismál að meginmáttarstólpa Helsinki +40 ferlisins.

Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson tók þátt í störfum 3. nefndar um lýðræðis- og mannréttindamál. Þar var meðal annars rætt og ályktað um nauðsyn þess að ríkisvaldið tryggði málfrelsi, bæði almennt og eins á internetinu. Þá kallaði nefndin eftir því að ríkisstjórnir virtu réttarríkið og sjálfstæði dómstóla, bæru sakir af pólitískum föngum og slepptu öllum pólitískum föngum. Í ályktuninni var einnig kallað eftir því að ríkisstjórnir stofnuðu sérstakar deildir sem ynnu gegn mansali, settu á fót aðgerðaáætlanir gegn nútímaþrælahaldi og afnæmu dauðarefsingu.

Haustfundur ÖSE-þingsins var í Budva í Svartfjallalandi 13.–15. október 2013. Þann fund sóttu hv. þingmenn Elsa Lára Arnardóttir, formaður, Pétur H. Blöndal, varaformaður, og Guðmundur Steingrímsson, auk Magneu Marinósdóttur alþjóðaritara. Fundur um málefni landa við Miðjarðarhafið undir yfirskriftinni bandalag siðmenningar fór fram á fyrsta degi þingsins þar sem ástandið í Sýrlandi var sérstaklega til umræðu. Þar á eftir hélt stjórnarnefnd þingsins fund þar sem meðal annars hv. þm. Pétur H. Blöndal greindi frá þátttöku sinni á fundi fastaráðs ÖSE 10. október í Vín þar sem fjárhagsáætlun ÖSE fyrir árið 2014 var til umræðu. Að lokum fór fram þemaráðstefna um það hlutverk ÖSE að standa vörð um mannréttindi í baráttu gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi og hryðjuverkum.

Á fundi stjórnarnefndarinnar gerði forsetinn Ranko Krivokapic grein fyrir starfsemi þingsins þar sem hann lagði meðal annars áherslu á að efla stöðu þingsins innan ramma Helsinki +40 endurskoðunar- og umbótaferlisins sem fer fram í tilefni af 40 ára afmæli ÖSE árið 2015. Að hans mati kallar það á skilvirkari starfshætti þingsins og aukið fjármagn til að standa straum af því að ráða fleira fólk til starfa. Í samanburði við aðrar alþjóðaþingmannasamkundur hefur ÖSE-þingið fæstu starfsmennina, 17 fasta starfsmenn samanborið við til dæmis NATO-þingið sem er með 35 fasta starfsmenn.

Á fundi stjórnarnefndarinnar var fjárhagsáætlun ÖSE fyrir árið 2014 einnig kynnt en samkvæmt henni verða ekki breytingar á heildarútgjöldum stofnunarinnar frá árinu 2013 þrátt fyrir að verkefnum fjölgi frekar en hitt. Helstu breytingar eru að gert er ráð fyrir áframhaldandi lægri framlögum til verkefna á Balkanskaga en hærri framlögum til verkefna í Mið-Asíu og til lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE í Varsjá sem sér meðal annars um kosningaeftirlit. Framlög til höfuðstöðva ÖSE í Vín munu standa í stað en undanfarin ár hafa þau hækkað hlutfallslega sem hefur verið gagnrýnt af Pétri H. Blöndal og fleiri þingmönnum. Jafnframt var tilkynnt um skipulagsbreytingar með tilurð tveggja nýrra skrifstofa innan ÖSE sem hafa það hlutverk að veita formennskuríki ÖSE stuðning og auka viðbragðsflýti ÖSE til að fyrirbyggja átök. Pétur H. Blöndal, sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE, fagnaði því að ÖSE hefði horfið frá þeirri stefnu að hækka ekki fjárframlög að nafnverði milli ára en hann hefur lengi gagnrýnt niðurskurð sem kemur til vegna tilfallandi verðbólgu í stað langímastefnumótunar og þarfagreiningar. Á sama tíma gagnrýndi hann að niðurskurður til vettvangsskrifstofa ÖSE væri flatur en fram kom í umræðunni að enginn sveigjanleiki væri til að flytja fjármagn frá einni skrifstofu til annarrar sem gerir það að verkum að ÖSE á erfitt með að bregðast við breyttum aðstæðum. Pétur lagði einnig til að ÖSE-þinginu yrði falið að samþykkja fjárhagsáætlun ÖSE og ráða endurskoðanda fyrir ársreikninga stofnunarinnar sem mundi heyra undir þingið í samræmi við nútímakröfur um gagnsæi og góða stjórnarhætti.

Síðan er smákafli um þátttöku Péturs H. Blöndals, sérlegs fulltrúa forseta ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE, á fundi fastaráðs ÖSE í Vínarborg 10. október 2013. Pétur H. Blöndal hefur starfað sem sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE frá árinu 2006. Í október 2013 sótti hann fund fastaráðs ÖSE þar sem hann skýrði ráðinu frá sjónarmiðum sínum um fjárreiður stofnunarinnar. Í ræðu hans kom fram að í gegnum árin hefði hann einna helst gagnrýnt að heildarútgjöld stofnunarinnar væru þau sömu ár eftir ár í evrum talið og að fjárhagsáætlunin tæki ekki mið af verðbólgu. Hann hefði einnig gagnrýnt að dregið væri úr framlögum til vettvangsskrifstofa á meðan framlög til höfuðstöðva ÖSE í Vín væru aukin og lýst yfir áhyggjum af áhrifum þessarar þróunar á starfsemi vettvangsskrifstofanna. Þær væru flaggskip ÖSE og skert fjármögnun verkefna mundi grafa undan möguleikum skrifstofanna til að starfa almennilega og uppfylla skyldur sínar. Það mundi síðan skaða orðspor og trúverðugleika ÖSE. Loks hefði hann lagt til að ÖSE-þinginu yrði falið að ráða endurskoðanda fyrir reikninga ÖSE sem mundi heyra undir ÖSE-þingið og greina því beint frá niðurstöðum sínum. Það gæti aukið skilning milli ÖSE og ÖSE-þingsins. Hann benti á ályktun sem ársfundur ÖSE-þingsins samþykkti í Istanbúl árið 2013 sem sneri að því að auka traust, gagnsæi og ábyrgð innan stofnana ÖSE en í henni hefði áðurgreint fyrirkomulag meðal annars verið lagt til.

Hvað varðaði fjárhagsáætlun ÖSE fyrir árið 2014 fagnaði hann því að gert væri ráð fyrir auknum útgjöldum og sagðist vona að aukningin væri byggð á strategískri forgangsröðun sem tæki til greina þarfir verkefna og væri byggð á kerfisbundnum matskerfum. Þá væri einnig mikilvægt að huga að því hvernig hægt væri að ljúka verkefnum. Loks benti hann á mikilvægi þess að ÖSE og ÖSE-þingið ynnu náið saman að sameiginlegum markmiðum. ÖSE þyrfti að hafa í huga að úthlutun fjármagns til stofnunarinnar væri ákveðin í þjóðþingum aðildarríkja stofnunarinnar og stofnunin þyrfti því á skilningi og góðvilja þingmanna að halda. Kjörið væri að nýta möguleika sem ÖSE hefði á tengslum við þingmenn aðildarríkja í gegnum ÖSE-þingið.

Undir þessa skýrslu rita hv. þingmenn Elsa Lára Arnardóttir, formaður, Pétur H. Blöndal, varaformaður, og Guðmundur Steingrímsson.