143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamningur Íslands og Kólumbíu.

327. mál
[20:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um heimild til handa ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli ríkja fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Kólumbíu sem undirritaður var í Genf 25. nóvember 2008.

Jafnframt er leitað heimildar til fullgildingar landbúnaðarsamningi milli Íslands og Lýðveldisins Kólumbíu sem undirritaður var sama dag.

Tillaga þessi var áður lögð fram á 138., 139. og 141. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Samningur við Kólumbíu líkt og aðrir fríverslunarsamningar er mikilvægur til að bæta aðgang fyrirtækja í EFTA-ríkjunum, þar á meðal íslenskra fyrirtækja, að markaðnum í Kólumbíu.

EFTA-ríkin hafa gert 25 fríverslunarsamninga við ríki eða ríkjahópa, að samningnum við Kólumbíu meðtöldum. Í tengslum við þessa samninga hafa verið gerðir sérstakir tvíhliða samningar á milli einstakra EFTA-ríkja og viðkomandi ríkis eða ríkjahóps um verslun með óunnar landbúnaðarvörur.

Á undanförnum fjórum árum hafa árleg verðmæti útflutnings til Kólumbíu verið á bilinu 50–80 millj. kr. Nær eingöngu sjávarafurðir hafa verið fluttar út. Innflutningur frá Kólumbíu hefur minnkað mikið undanfarin fjögur ár. Árið 2011 nam verðmæti innflutnings 362 millj. kr., en nam í fyrra 154 millj. kr. Grænmeti, ávextir og kaffi eru mikilvægustu innflutningsvörurnar.

Fríverslunarsamningurinn við Kólumbíu kveður á um lækkun á niðurfellingu tolla við iðnaðarvörur og sjávarafurðir. Þannig munu tollar á helstu sjávarafurðum og iðnaðarvörum frá Íslandi falla niður við gildistöku samningsins eða eftir atvikum að loknu 5–10 ára aðlögunartímabili.

Tollar við innflutning á sjávarafurðum til Kólumbíu eru nú á bilinu 5–20%. Með niðurfellingu þessara tolla skapar samningurinn forsendur fyrir aukin viðskipti með sjávarafurðir. Fríverslunarsamningurinn er af svokallaðri annarri kynslóð fríverslunarsamninga og inniheldur, auk ákvæða um vöruviðskipti, ákvæði um þjónustuviðskipti, fjárfestingar, hugverkaréttindi, samkeppnismál, opinber innkaup, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála.

Þá er gert ráð fyrir í samningnum að samningsaðilar hittist reglulega á samráðsfundum til að fara yfir framkvæmd samningsins og önnur mál sem honum tengjast.

Virðulegi forseti. Landbúnaðarsamningurinn milli Íslands og Lýðveldisins Kólumbíu er viðbótarsamningur og gerður með vísan til fríverslunarsamningsins. Verslun með óunnar landbúnaðarvörur fellur undir landbúnaðarsamninginn og kveður hann á um að tollar á tilteknar landbúnaðarvörur verði lækkaðir eða felldir niður. Kólumbía mun m.a. fella niður tolla á vatn og lifandi hross frá gildistöku samningsins en tollar á íslenskt lambakjöt falla að fullu niður að loknum tíu ára aðlögunartíma. Ísland mun fella niður tolla á ýmsar tegundir lifandi plantna, svo sem ákveðnar tegundir afskorinna blóma, jólatré, ýmsar matjurtir og ávaxtasafa. Um er að ræða svipaðar tollaívilnanir og í samningum Íslands við Evrópusambandið.

Fríverslunarsamningurinn hefur tekið gildi á mikilli Kólumbíu, Sviss og Liechtenstein. Búist er við að tillaga um fullgildingu samningsins af hálfu Noregs verði lögð fyrir norska þingið á vormánuðum.

Íbúar í Kólumbíu hafa búið við óöld um áratugaskeið. Undanfarinn áratug hafa stjórnvöld hins vegar náð betri tökum á ástandinu. Hafa mikilvæg skref nýverið verið tekin í átt að friðarsamkomulagi milli stríðandi fylkinga í landinu. Undanfarin ár hafa verið Kólumbíu hagfelld í efnahagslegu tilliti og hagkerfið hefur vaxið m.a. með auknum fjárfestingum. Efnahagsspár gera ráð fyrir áframhaldandi hagvexti á komandi árum.

Sendinefnd frá Kólumbíu sótti Ísland nýlega heim og átti fund í utanríkisráðuneytinu, atvinnuvegaráðuneyti og í velferðarráðuneyti og með fulltrúum atvinnurekenda og launþega og við fulltrúa í utanríkismálanefnd Alþingis. Á þessum fundum kom fram greinilegur vilji af hálfu Kólumbíumanna til frekara samstarfs við Íslendinga. Í heimsókninni var m.a. undirritað samkomulag um reglubundið samráð milli ríkjanna. Þá mun Íslandi gefast tækifæri til skoðanaskipta í Kólumbíu um ýmis málefni m.a. mannréttinda og vinnumál í landinu, en í þessari heimsókn var einmitt töluvert rætt um ástand þeirra mála.

Það er engum blöðum um það að fletta að mjög jákvæð þróun hefur verið í þessum málum á síðustu árum þótt enn sé verk að vinna, það viðurkenna stjórnvöld í Kólumbíu.

Ég legg til, virðulegi forseti, að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar.