143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamningur Íslands og Kólumbíu.

327. mál
[20:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skörulegan málflutning varðandi fríverslunarsamninginn sem hér liggur fyrir til staðfestingar. Hann hefur verið fluttur nokkrum sinnum áður. Ég kem hér einungis til þess að lýsa eindregnum stuðningi mínum við að Alþingi Íslendinga geri nú reka að því að klára þetta mál. Eins og hæstv. ráðherra sagði í máli sínu hefur verið deilt á það að við staðfestum þennan samning af hálfu verkalýðshreyfingarinnar sökum þess að í lok síðustu aldar og fram á þessa öld ríkti óöld í Kólumbíu. Þar voru upphaflega sjö skæruliðahreyfingar á dögum, nú er ein eftir, FARC. Þessar hreyfingar, sem upphaflega urðu til í þeim tilgangi að styðja við kjör kúgaðrar alþýðu, breyttust í rás tímans í hreyfingar sem hafa viðurværi sitt af því að skýla barónum sem tengjast framleiðslu á eiturlyfjum og hafa að sjálfsögðu engan tilverurétt og sem betur fer lítinn grundvöll núna.

Á seinni árum varð það nokkuð títt í Kólumbíu að þessar hreyfingar tóku þá sem þá ráku áróður og herferðir fyrir skipulagðri starfsemi verkalýðshreyfingarinnar, og réðu þá af dögum, limlestu marga og af þessum sökum átti Kólumbía undir högg að sækja t.d. gagnvart Alþjóðavinnumálastofnuninni.

Eins og hæstv. ráðherra gat um í framsögu sinni hefur það komið algjörlega skýrt fram á síðustu árum að stjórnvöld þar í landi hafa gert mjög mikið til þess að reyna að sætta stríðandi öfl í landinu og hefur þeim orðið mjög vel ágengt. Þau hafa t.d., eins og okkur var kynnt nýlega í heimsókn þeirrar sendinefndar sem hæstv. ráðherra gat um og hitti einnig að máli utanríkismálanefnd Alþingis, skipulagt vernd fyrir verkalýðsforkólfa, blaðamenn og aðra sem standa í mannréttindabaráttu og mönnum þykir að þurfi á slíkri vernd að halda.

Það kom fram á þeim fundi að síðan þetta var sett upp hafi 680 manns sem taldir hafa verið vera í háska vegna þessara hreyfinga notið slíkrar verndar. Sömuleiðis er í gangi umfangsmikil áætlun sem kólumbísk stjórnvöld standa fyrir um að afhenda jarðnæði því fólki sem hefur tengst og haft viðurværi af því að starfa með hópum af þessu tagi, m.a. við framleiðslu á ólögmætum efnum. Öðrum hafa sömuleiðis verið greiddar skaðabætur.

Samtals er búið að taka fyrir 30 þúsund kröfur og óskir af þessu tagi og mikil vinna í gangi þannig að ég lít svo á að kólumbísk stjórnvöld hafi gert mjög mikið til þess að reyna að vernda þá sem verkalýðshreyfingin, bæði hér á Íslandi og hin alþjóðlega, taldi vera í hættu stadda. Það er alveg ljóst að ástandið þó það sé ekki kannski nógu gott er það miklu betra en það var. Það er sömuleiðis í gadda slegið að stjórnvöldin hafa mjög lagt sig í framkróka um að skapa þeim vernd sem eru útsettir fyrir árásum þessara hópa.

Sömuleiðis hafa kólumbísk stjórnvöld átt í skipulögðum friðarviðræðum við þá með aðkomu og á tímabili a.m.k. undir forustu Norðmanna, þannig að ég tel að þann góða vilja eigi að meta með því að Alþingi og þingflokkar sem hér sitja láti af andstöðu sinni við að staðfesta þennan samning og geri það hið fyrsta.