143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 226/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

349. mál
[20:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 226/2013, um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn um tæknilegar reglugerðir, staðlaprófanir og vottun og fella inn í samninginn tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2012/4/ESB frá 22. febrúar 2012 um breytingu á tilskipun 2008/43/EB um að koma á, samkvæmt tilskipun ráðsins 93/15/EBE, kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota.

Tilskipunin breytir eldri tilskipun sem kom á fót kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota, en Ísland staðfesti það 15. september 2012 ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem felldi hina eldri tilskipun frá 2008 inn í EES-samninginn.

Í þeirri tilskipun er m.a. kveðið á um að framleiðendur og innflytjendur sprengiefnis skuli auðkenna það þannig að það sé rekjanlegt til framleiðenda til samræmis við viðauka við tilskipunina.

Tilskipunin sem nú er til umfjöllunar breytir eldri tilskipun í þá átt að undanskilja kveikiþræði og hvellhettur frá gildissviði hennar.

Innleiðing eldri tilskipunarinnar kallar á breytingu á vopnalögum nr. 16/1998, með síðari breytingum, en eftir á að innleiða þá tilskipun. Þar af leiðandi var það metið svo að innleiðing þeirrar tilskipunar sem nú er til umfjöllunar kalli jafnframt á breytingu á vopnalögum. Gert er ráð fyrir að innanríkisráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á vopnalögum til innleiðingar á eldri tilskipuninni og þar af leiðandi einnig þeirri sem nú er til umfjöllunar, en framlagning mun þó ekki nást á yfirstandandi þingi.

Innleiðing tilskipunar 2014/4/ESB kallar ekki á aukinn kostnað umfram kostnað sem felst í innleiðingu eldri tilskipunarinnar. Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.