143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

kerfisbreytingar í framhaldsskólanum.

[15:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það væri bæði til gagns og gleði, að ég segi ekki til gamans beinlínis, ef hæstv. ráðherra mundi vilja svara spurningunum sem ég lagði fyrir hann. Spurningarnar eru: Gerir ráðherrann ráð fyrir fækkun námseininga til stúdentsprófs? Eða í öðru lagi: Gerir ráðherrann ráð fyrir jafn mörgum einingum, sömu kennslu á styttri tíma, á færri árum? Jafn mikið kennslumagn, jafn margar kennslustundir á færri árum? Gerir ráðherrann þar með ráð fyrir að þannig falli til einhverjir peningar og hvenær falla þeir peningar til? Gera þeir það á árunum 2014, 2015, 2016? Og hvernig eiga þeir peningar þá að koma inn til þess að leysa þá kjaradeilu og það verkfall sem stendur yfir núna í mars 2014?