143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

kerfisbreytingar í framhaldsskólanum.

[15:15]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er mat mitt að ekki þurfi að breyta hér lögum til þess að hægt sé að halda áfram með þróun skólakerfisins eins og hún hefur verið á undanförnum árum, þ.e. skólum fjölgar jafnt og þétt sem hafa fært sig úr því að vera með fjögurra ára nám og yfir í þriggja ára nám. Nýjasti skólinn sem hefur lýst því yfir að hann ætli að taka upp þetta fyrirkomulag er Verslunarskólinn. Kvennaskóli Íslands er með slíkt fyrirkomulag og slíkt fyrirkomulag er uppi í Borgarfirði. Það er augljóst að þetta gengur vel fyrir sig.

Það sem við þurfum að gera er að gera breytingar á kjarasamningum við kennara svo að þessi þróun geti orðið með almennum hætti og gengið snurðulaust fyrir sig. Um það snýst þetta mál, virðulegi forseti. Ég ítreka að ég tel ekki nauðsynlegt að gera neinar breytingar á núverandi lagafyrirkomulagi til að þessi þróun gangi fram.