143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

utanríkisstefna Íslands.

[15:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Í því tilfelli sem ég var að vísa í, hæstv. forsætisráðherra, var ekki verið að spyrja forseta Íslands um álit heldur var hann að skipta sér af áliti Norðmanna í utanríkismálum. Það er stór munur þar á, hvort verið er að biðja um álit eður ei.

Ég man eftir að hafa spurt annan fyrrverandi utanríkisráðherra, núverandi hv. þm. Össur Skarphéðinsson, um nákvæmlega það sama, þegar hann var utanríkisráðherra, hvort heppilegt væri að það væru mismunandi utanríkisstefnur frá forseta Íslands og síðan ríkisstjórn og hvað þá þinginu. Yfirleitt höfum við reynt hér á Íslandi að vera með sameiginlega utanríkismálastefnu og hún kristallast í gegnum vilja þingsins sem síðan fer væntanlega yfir í vilja ríkisstjórnarinnar. En ég kannast ekki við að forseti Íslands virði það og mér finnst það mjög alvarlegt mál; ég óska eftir því að hæstv. forsætisráðherra ræði um það við forseta Íslands.