143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[15:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að flytja þetta frumvarp sem er að mörgu leyti ágætt. Sannarlega tek ég undir með honum að markmið þess eru góð en ég velti fyrir mér hvert sé raunverulegt andlag þess. Þegar maður les það og hlustar á ráðherrann kemur fram að Umhverfisstofnun getur veitt undanþágu skipum sem eru í föstum siglingum og hafa reglulega viðkomu í höfnum. Það væru þá farþegaskip og væntanlega öll skipin sem sigla á álverksmiðjurnar, þ.e. öll skip eru í reglulegum ferðum til Íslands.

Sömuleiðis má undanskilja fiskiskip, skemmtibáta sem flytja ekki fleiri en 12 farþega, skip Gæslunnar, hjálparskip í flotanum og síðan skip í ríkisrekstri. Hvaða skip eru það þá sem þessi lög ná til? Ég er ekki klár á því. Ég held að þau séu feikilega fá. Ég velti sem sagt fyrir mér tilganginum með þessu.

Ég þekki ekki út í hörgul hvers vegna ESA gerði athugasemdir við okkur en ef ég væri Eftirlitsstofnun EFTA mundi ég skoða þetta mjög rækilega því að mér sýnist að þó að hæstv. ráðherra komi af mikilli hugvitssemi til móts við aðfinnslurnar hafi hann af enn meiri snilld nánast undanþegið öll skip því að þurfa að fara að þessu lögum ef frumvarpið verður samþykkt.