143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[15:44]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hafi orðin hljómað skáldlega úr mínum munni er það ekki vegna þess að ég hafi gripið til skáldlegra tilþrifa. Það eina sem ég gerði var að renna yfir frumvarpið, hlusta á skörulegt mál hæstv. ráðherra og lesa orðrétt upp úr frumvarpinu.

Það er að vísu rétt hjá hæstv. ráðherra að ég misskildi það sem varðaði áætlunarsiglingarnar vegna þess að það kemur fram í frumvarpinu að Umhverfisstofnun hafi ekki leyfi til að undanþiggja þau skip þessum kvöðum heldur einungis gjaldinu. Þá hlýtur maður að velta fyrir sér hvort þetta feli ekki í sér nokkrar kvaðir á hafnirnar. Ég ætla ekki að spyrja hæstv. ráðherra að því að þessu sinni.

Munurinn á Íslandi og öðrum löndum eins og Noregi er sá að í Noregi ímynda ég mér að séu miklu fleiri skipakomur sem eru tilfallandi vegna þess að þar er verið að flytja járngrýti og ýmislegt fleira sem ekki er til að dreifa hér á landi. Ég held að alveg óskaplega fá skip (Forseti hringir.) muni lenda í því að þurfa að axla þær byrðar ef einhverjar eru sem í þessu frumvarpi felast.