143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[15:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans fyrir málinu. Ég vildi inna hann eftir nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi hvort frumvarpið takmarkist við þá þætti sem nauðsynlegir eru til innleiðingar samkvæmt tilskipununum eða hvort eitthvert svigrúm sé þar til túlkunar og hvort við séum að einhverju leyti að ganga lengra en tilskipanirnar kveða á um strangt til tekið.

Í öðru lagi hvers vegna ekki var staðið með þeim hætti sem hér er lagður til að innleiðingunni þegar í upphafi, úr því að mál þessi eru í svona góðu horfi, eins og hæstv. ráðherra segir, hjá okkur. Hvað var því til fyrirstöðu að innleiða tilskipanirnar á réttan hátt þegar í upphafi? Hvers vegna þurfti ESA að hafa afskipti af málinu? Varla hefur ESA tekið málið upp ef ekki eru neinir hagsmunir annars vegar af því að þetta sé rétt gert.

Þá vildi ég inna ráðherrann eftir því sem lýtur að viðurlögum. Hverra er það að ákvarða viðurlögin og sækja þau? Hvaða aðili er það í stjórnkerfi okkar sem sektar þessa aðila og innheimtir þær sektir og hvert geta menn þá skotið þeim ákvörðunum ef þeir telja þær vera rangar eða ekki á réttu byggðar?

Síðast en ekki síst, af því að ráðherrann segir að hreint haf sé okkur Íslendingum mikils virði, hversu margir eru þeir starfsmenn eða stöðugildi á vegum hæstv. umhverfisráðherra sem gæta að mengun hafs og stranda? Hversu öflugu liði hefur hæstv. ráðherra á að skipa til þess að hafa eftirlit með menguninni í höfunum í kringum okkur og á ströndinni?