143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[15:56]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er spurt um kostnaðinn sem ýmist leggst á sveitarfélög eða þá aðila sem gjaldskráin mun taka til.

Því er að svara að í því kostnaðarmati sem ráðuneytið og síðan fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins hefur lagt til er það mat þeirra að lögfesting frumvarpsins hafi óveruleg áhrif á útgjöld sveitarfélaga og að þeirri útgjaldaaukningu verði hægt að mæta með gjaldtöku. Það er að sama skapi mat í þessu kostnaðarmati að kostnaður Umhverfisstofnunar vegna eftirlits verði einnig óverulegur og miðað er við að á hverju fimm ára tímabili verði heimsóttar sjö stórar, 20 millistórar og 50 litlar hafnir.

Varðandi hreyfanleikann er það þannig að í mjög litlum höfnum er kannski óþarfi að koma upp mjög kostnaðarsamri fastri aðstöðu ef hægt er að leysa málið öðruvísi. Það er það sem fjallað er um í frumvarpinu, að hægt sé að leysa þetta af skynsemi og með eins litlum kostnaði og hægt er en uppfylla engu að síður þær kröfur sem í frumvarpinu eru.