143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[16:00]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þetta síðasta svar. Ég tek alveg undir með honum, að sjálfsögðu eigum við að hafa einhvern hvata til staðar til að koma í veg fyrir að sjórinn okkar og hafið sé mengað á þennan hátt. Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt að greiða fyrir þá úrgangslosun en mér finnst ekki koma skýrt fram hér hversu mikill kostnaður það er fyrir þá sem bera hann raunverulega af því að eingöngu er horft á það út frá ríkissjóði og í rauninni ekki einu sinni lagt mat á það, en talað er um að það sé gert á öðrum stað, varðandi sveitarfélögin.

Það var það sem ég var að fiska eftir og ég hefði gjarnan viljað sjá til dæmis hversu mikið að meðaltali hafnargjöldin mundu þurfa að hækka til að mæta þeim kostnaði. Það kemur ekki heldur fram hérna og er aðeins er talað um óverulegan kostnað sveitarfélaga. Það er þá væntanlega í uppbyggingu aðstöðu sem þau eiga svo að rukka inn fyrir en það kemur ekki fram hjá þeim sem bera þann kostnað hver gjöldin eru sem þeir þurfa að borga.

Ráðherra talaði um að þetta væri almennt í ágætu lagi þannig að þá má líta svo á, eins og kom fram í umræðunni áðan, að ef verið er að innheimta einhvers konar gjald fyrir úrgang og skolp slíkt og ef það er í lagi — samt kemur fram að viðauki við MARPOL-samninginn hafi ekki verið fullgiltur sem kveður á um losun skolps í lögunum og hér sé verið að bæta úr því. En ég ætla að fara aðeins aftur í umsögn Hafnasambandsins. Henni eru gerð ágæt skil í greinargerð með frumvarpinu. Það hefur verið töluvert gagnrýnt að verið sé að leggja á gjöld sem eru kannski kölluð eitthvað annað en þau eru, eins og að leggja á gjald sem borgað er hvort sem þjónustan er nýtt eða ekki, þ.e. á öll skip sem koma til hafnar. Með því að greiða hækkað hafnargjald eru menn væntanlega að borga fyrir þá sem þurfa að losa úrgang þótt þeir sem eru að leggja að þurfi í rauninni ekki á þeirri þjónustu að halda. Það er munurinn, hvort við tölum um þetta sem skatt eða sem þjónustugjald. Mér finnst þarna verið að setja inn þjónustugjald sem er í rauninni ekkert annað en skattur sem fleiri eru að borga en færri eru að nýta. Um það snýst þetta í mínum huga. Það er það sem ég var að gagnrýna og leita eftir og fannst ég ekki fá svör við frá hæstv. ráðherra. Hann talaði um það sem ég er alveg sammála, að þeir eigi að borga sem menga og þurfa að losa sig við úrgang en það er óþarfi að hinir borgi sem lögin ná ekki til. Með því sem hér er verið að leggja til er það svoleiðis og kemur það ágætlega fram á bls. 8.

Síðan fannst mér heldur ekki koma skýrt fram hjá ráðherranum hvort almenn aðstaða er í höfnum til þessa eða hvort meira sé um að móttaka sé í hreyfanlegu formi. Það er eitthvað sem má velta fyrir sér, hvað verið sé að koma til móts við hér ef svo er ekki. Ég hefði gjarnan viljað vita hversu margar hafnir eru með viðunandi aðstöðu, þ.e. þurfa ekki að leggja út í neinn kostnað heldur uppfylla í rauninni þá staðla sem um að ræða. Eru það eingöngu stærstu hafnirnar eða fleiri sem uppfylla þær kröfur og væri þá hugmynd að einhvers konar byggðasamlög eða annað slíkt gætu komið inn og tekið sig saman og búið til hugsanlega hreyfanlega aðstöðu?

Það kemur hérna fram að samþykkt þessa frumvarps komi til með að hafa efnahagsleg áhrif á skip sem koma til hafnar þar sem þeim verður skylt að greiða úrgangsgjald. Hér hefur ekki verið lagt mat á þann kostnað sem mun leggjast á útgerðir. Ég hélt að það væri þannig með öllum þeim frumvörpum sem kæmu frá Alþingi að ríkisstjórn þyrfti að leggja fram kostnaðarmat en hér er beinlínis tekið fram að það sé ekki gert. Ég mundi vilja að hæstv. ráðherra svaraði því ef hann kemur og tekur til máls í lokin, að hann segði okkur frá því.

Á bls. 13 er talað um viðmið sem hægt er að leggja til grundvallar þegar skorið er úr um hvort skip uppfyllir skilyrði til að fá gjöld lækkuð. Talað er um að það standi yfir vinna hjá Evrópusambandinu varðandi þau sameiginlegu viðmið sem á að líta til þegar ákvörðun verður tekin um hvaða skip fá lækkun þessara gjalda eða undanþágu, hvenær megi vænta þess. Mér finnst svolítið sérstakt að vera að innleiða reglugerðir með heilmiklum undanþágum til handa fjölmörgum skipum og maður sér orðið ekki hvaða skip eru eftir. Svo er líka talað um að einhver skip komi til með að fá lækkun gjalda sinna. Hvenær telur ráðherrann að þeirri vinnu ljúki?

Einnig er talað um það sem hæstv. ráðherra kom inn á, og svaraði mér í andsvari áðan, að hafnirnar eiga hluta af gjaldinu sem verður innheimt fyrir móttöku og meðhöndlun þessa úrgangs og eigi þar með að greiða þennan kostnað við Umhverfisstofnunina en þar er talað um að eftirlitið virðist ekki vera neitt sérstaklega mikið. Á fimm ára tímabili á að heimsækja sjö stórar, 20 millistórar og 50 litlar hafnir og fara sjö vinnudagar á ári í eftirlitsheimsóknir vegna ferðalaga. Eins og kom fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar veltir maður því fyrir sér hvernig á að bregðast við og hvort eftirfylgni sé varðandi sektir eða aðrar aðgerðir; dugar þetta til þess?

Alveg í lokin vil ég segja að verið er að tala um í því sambandi tvenns konar gjaldtöku í höfnunum og svo til viðbótar að Umhverfisstofnun nái að innheimta gjaldið fyrir eftirlitið. Mér finnst því verið að innleiða gjöld sem liggur ekki fyrir hversu há eru til þeirra sem þau þurfa að borga og þeir eru látnir borga sem nýta sér jafnvel ekki þjónustuna. Ég mundi vilja vita viðhorf ráðherrans til þess.