143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[16:13]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek að sjálfsögðu undir með hv. þingmanni, þetta er afar gott markmið og við stefnum að sjálfsögðu öll að því, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að hafið verði sem hreinlegast.

Það kemur reyndar fram í umsögn hvers vegna fiskiskipin eru ekki inni í þessum lið. Í umsögn LÍÚ kemur fram að þeir hafi sýnt fram á að séð væri til þess að úrgangur frá fiskiskipum þeirra væri losaður og meðhöndlaður með fullnægjandi hætti og án þess að það bryti í bága við ákvæði tilskipunarinnar.

Það má svo sem velta því líka fyrir sér hvort eigi að vera mikið um einhverjar sérlausnir, þ.e. að hver og einn geti einhvern veginn gert þetta með sínum hætti og fái þar af leiðandi undanþágu, eins og í þessu tilfelli, í staðinn fyrir að fella alla undir lögin og þá bara afgreitt með öðrum hætti, vegna þess að eftir sem áður þurfa þeir að borga fyrir losun eins og þeir gera í dag. Ég veit ekki alveg af hverju þeir geta ekki verið undir þessum lögum, þeir telja kannski að það verða dýrara fyrir sig, en eins og ég segi, ég átta mig ekki alveg á því. Þó að skip losi úrganginn með fullnægjandi hætti í dag, hver yrði þá breytingin á því að skipin yrðu sett undir þessi lög? Í rauninni kemur ekki rökstuðningur fram hér hvað það varðar.