143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[16:17]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það má svo sem segja að þarna geti falist ákveðin mótsögn, en eins og ég kom inn á áðan finnst mér það kannski athugunarvert að verið er að leggja fram frumvarp sem ekki er kostnaðarmetið að fullu samkvæmt því sem kemur hér fram. Ekki kemur fram hver gjöldin eru á skipin, það eru útgerðaraðilarnir sem bera þennan kostnað.

Ég tek alveg undir það að við viljum láta borga fyrir þessa þjónustu af því að við viljum jú fá úrganginn til eðlilegrar förgunar. Það er mjög mikilvægt að halda því til haga. Þetta snýst ekki um það heldur snýst þetta svolítið um hverjir eru undanþegnir, finnst mér, og svo það að hvergi kemur fram hver kostnaðurinn er í rauninni við þetta, að minnsta kosti núna. Auðvitað verður reglugerðin sett og það er afar mikilvægt að hvatinn verði þess eðlis, eins og þingmaðurinn kom inn á, að gjaldið verði það lágt að menn sjái ástæðu til að koma með úrganginn.

Ég tel reyndar að þetta sé ekki í slæmu ásigkomulagi, ég treysti sjómönnum svona heilt yfir til þess að ganga vel um hafið og skila úrgangi til hafnar með eðlilegum hætti. Ráðherra sagði að þetta væri almennt í lagi, þ.e. aðstaðan í höfnum og afhendingin. Ég held að mikilvægt sé að gjaldið verði lágt og þar með hvetjandi til að losa úrganginn, og ég á alveg von á því að það verði, en hef samt efasemdir um að draga svona marga út úr, þ.e. að undanþágurnar séu svona gríðarlegar eins og hér virðist vera. Maður veltir því auðvitað fyrir sér enn og aftur hverjir það eru sem raunverulega borga.