143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[16:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ef hæstv. ráðherra hefði látið svo lítið að stíga niður úr fílabeinsturni sínum og hlýða á alla ræðu mína hefði hann komist að því að það eru sennilega fáir sem eru jafn heitir unnendur mengunarbótareglunnar og sá sem hér stendur. Það lá við að ég gréti söltum tárum þegar ég undir fyrri parti ræðu minnar greindi frá því miður árangurslausri viðleitni minni sem ungs umhverfisráðherra á sínum tíma til að innleiða hana einmitt á þessu sviði. Ég lýsti því fyrir hæstv. ráðherra hvað hefði valdið því. Á þeim tíma voru rökin nákvæmlega þau sömu og vaka í hugskoti hæstv. ráðherra, þ.e. að með því að koma slíku gjaldi á væri verið að snúa mengunarbótareglunni upp í andhverfu sína og hún mundi verða til þess að ýta undir losun í hafið.

Þessu gerir hæstv. ráðherra sér grein fyrir því að hann nefndi þetta sérstaklega í ræðu sinni. Efnislega sagði hann að þarna væri fínt einstigi sem menn þyrftu að þræða. Ég er honum sammála um það. Þess vegna tel ég, frú forseti, að mikilvægt sé að það liggi fyrir hversu hátt þetta gjald er, fyrir liggi mat á því hvort líklegt sé að það hafi tilætluð áhrif eða andstæð.

Ég treysti hæstv. ráðherra fyllilega til að setja um það góðar reglur með sínum góðu samstarfsmönnum. Ég vildi hins vegar gjarnan vita hverjir eru meginþræðir hugsunar hans í því efni. Ég er þeirrar skoðunar að ef tryggt er að gjaldtakan helgist af magni og tegund úrgangs séum við komin nokkuð áleiðis til sáttar. En því hefur verið haldið fram að svo sé ekki og þrátt fyrir ágætt andsvar hæstv. ráðherra náði hann ekki (Forseti hringir.) að skýra það úr fyrir mér. En af því að ég hef trú (Forseti hringir.) á mannskepnunni og líka hæstv. ríkisstjórn (Forseti hringir.) og trú á því að hún vilji vel, ef hann segir að reglurnar verði til þess að (Forseti hringir.) þjóna því markmiði þá skal ég fallast á það.