143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[16:39]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fór reyndar eins og mig grunaði að þegar við hv. þm. Össur Skarphéðinsson mundum ýta hinu pólitíska þraskarpi til hliðar værum við í grunninn sammála um frumvarpið. Og það hlaut að vera að ég hefði misskilið hv. þingmann, að hann væri að hvetja mig sem ráðherra til að koma aldrei framar með slík mál inn í þing, því að hér er gott og gagnmerkt mál á ferðinni. Verið er að innleiða mengunarbótaregluna, verið er að ganga eins skynsamlega fram og hægt er til að hafa þann hvata að menn skili úrganginum með tilhlýðilegum hætti en greiði fyrir það með eðlilegum hætti líka, svo að ekki sé verið að setja kostnaðinn á aðra, sveitarfélögin eða Hafnasambandið, hvað þá að setja hann í hafið.

Ég held því að við hv. þingmenn séum í grunninn sammála um megintilgang og markmið laganna fyrir utan það að við erum auðvitað að líka að koma til móts við þau sjónarmið sem EFTA-dómstóllinn hefur krafið okkur um að gera, og eðlilegt að við gerum það til að standa við þá samninga sem við höfum undirgengist á alþjóðavettvangi.

Varðandi gjaldtökuna nákvæmlega, hver hún er, er það mat þeirra sem að hafa komið að hún sé óveruleg. Hún er hins vegar einhver, það er alveg rétt. Ég treysti hv. umhverfis- og samgöngunefnd mjög vel til þess í vinnu sinni út frá þeim umsögnum sem hún fær frá ólíkum aðilum að leggja mat á það þannig að 2. umr. um málið verði dýpri. Við höfum þá úr meiri upplýsingum að spila frá aðilum sem hafa sérþekkingu á þessu og ég veit að nefndinni er fulltreystandi til að fara yfir þau álitamál sem hér komu fram. Varðandi það sem fór á milli hv. þm. Bjarkeyjar Gunnarsdóttur og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar er það til að mynda mikill misskilningur að fiskiskip eigi að vera hér undir og að þau fái einhverja undanþágu. Það er einfaldlega þannig að í innleiðingunni (Forseti hringir.) eru fiskiskip ekki talin með og þannig er það líka í Noregi.