143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[16:51]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú vill svo til að bjargvættur okkar í þessum efnum er hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra. Ein af þeim merku yfirlýsingum sem hann gaf hér í dag og hefur kannski farið fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar var að honum þótti mjög naumar fjárveitingar til eftirlits með hafinu. Hann treystir sér ekki fremur en ég til að svara því hvort því sé sinnt sem svarar hálfu stöðugildi núna, ég veit ekki um það en ég man hvað það var á sínum tíma, en hæstv. ráðherra lýsti því líka yfir, eftir að hafa undirstrikað þessa skoðun sína, að nú væru bjartari tímar fram undan. Hann ætlaði að beita sér fyrir því að lagðar yrðu auknar fjárveitingar til að fylgjast með mengun í hafinu. Guð láti gott á vita. Hæstv. ráðherra er þungur á skriðnum þegar hann á annað borð tekur til fóta þannig að ég vænti þess að úr verði efndir.

Ég man ekki hvort það voru fjögur stöðugildi, ég held að þau hafi verið færri, ég held að þau hafi verið þrjú, hjá Umhverfisstofnun þegar hún tók til starfa, en þar á meðal var náttúrlega frábær maður sem gat sér orðstírs (Gripið fram í: Hann var hjá Siglingastofnun.) erlendis, Davíð Egilsson, (Gripið fram í: … sigl…) sem sinnti því hjá einhverjum stofnunum ríkisins. Mig rangminnir hugsanlega en eitt af síðustu verkum mínum var að færa það svið úr Siglingastofnun, (Gripið fram í: … Umhverfisstofnun.) já. (Gripið fram í: … enga peninga.) Þeir peningar sem fylgdu þessum þremur og hálfa manni sem þá voru.

Varðandi síðan fyrri spurningar hv. þingmanns hefur hæstv. ráðherra svarað því nokkuð skýrt, og ég tek þær skýringar hans gildar nema annað sannist, að ekki sé hægt að skilgreina þessa gjaldtöku sem skatt.

Að því er sektarvald varðar svara ég því þannig að þess eru nokkur dæmi að sektarvald hafi færst úr landinu. Stjórnskipunarfræðingar okkar hafa sagt að það sé í lagi af því að það er samkvæmt tveggja stoða kerfinu. Stjórnskipunarfræðingar hafa hins vegar líka sagt að ef menn skoða þau dæmi öll saman (Forseti hringir.) sé mjög umhendis hvort þetta standist stjórnarskrá. (Forseti hringir.) Og ég hef lýst því sem minni skoðun að svo sé ekki.