143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[16:56]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að sú meginbreyting sem hæstv. ráðherra lýsti og kemur fram í því að fella úr lagatexta upptalningu á tilskipunum og setja frekari reglugerð sé af hinu góða. Spurningin sem ég hef til hennar varðar 3. gr. Mér sýnist í fljótu bragði, alveg eins og með það frumvarp sem við ræddum áðan, að hugsanlega henti sá umbúnaður sem hér er lagður til betur við stærri þjóðir en okkur sem erum pínulítil.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um tvennt: Hvað ef engin samtök eru reiðubúin að taka að sér þetta hlutverk? Og í öðru lagi: Hvað ef samtökin eru fjárvana?

Ég ímynda mér að svona málarekstur kosti helling. Er hæstv. ráðherra reiðubúinn að lýsa því hvað verður ef upp koma tilvik þar sem hæstv. ráðherra, hver sem hann er eða verður, ákveður að tilnefna samtök til að reka mál af þessu tagi til að tryggja heildarhagsmuni íslenskra neytenda en samtökin eru blönk? Hvað þá? Mun ráðherra þá tryggja, eða verður það tryggt í einhverjum reglum sem væntanlega verða settar til að útfæra þetta, að ríkisstjórnin sjái til þess að sá málarekstur verði það sómasamlega unninn og ekki af svo naumum efnum að hagsmunir íslenskra neytenda skerðist ekki við?