143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[16:58]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni og tek undir það með honum að sannarlega er það oft, ekki bara í þessu máli heldur í mörgum öðrum sem við ræðum hér, sem þessi innleiðingarfrumvörp eins og við köllum þau eru sniðin að stærri samfélögum en okkar. Eins og kemur fram í greinargerð með þessu frumvarpi erum við með þessu að gera þetta með sama hætti og önnur ríki á Evrópska efnahagssvæðinu til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

Líkt og kemur þar fram er gert ráð fyrir að samtök geti í umboði ríkisvaldsins leitað lögbanns eða höfðað dómsmál. Það felur í sér að það er þá mat ráðuneytisins, þ.e. stjórnvaldsins, að mikilvægt sé að höfða mál til að fá úr því skorið og varðar heildarhagsmuni neytenda. Við lítum svo á að það sé ákvörðun stjórnvaldsins að höfða málið en að viðkomandi samtök, eða stjórnvöld eftir því hvaða orð við notum yfir það, muni fara fyrir málinu og þá verður auðvitað kostnaður fyrir ríkisvaldið. Það liggur í hlutarins eðli vegna þess að nú er einungis verið að færa valdið frá ráðuneytinu yfir til þeirra samtaka sem ráðuneytið, þ.e. stjórnvaldið, ákveður í þessu tilviki og tilnefnir viðkomandi aðila. Sé það mat stjórnvaldsins að það sé mikilvægt til að fá úr því skorið sem við köllum heildarhagsmuni neytenda, já, þá ber hið opinbera kostnaðinn.