143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[16:59]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ákvað að sitja og fylgjast með af því málið kemur til hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Ég verð að viðurkenna að frumvarp eins og það sem er lagt fram hér segir manni eiginlega ekkert um efnið. Það er í raun eintómar tilvitnanir og hvergi er útdráttur um hverju í því er verið að breyta. Það finnst mér svolítið óþægilegt. Ég spyr mig þeirrar spurningar, og bið hæstv. ráðherra að bregðast við, hvort það sé mat hæstv. ráðherra að hérna sé flutningur á frumvarpi sem er í raun og veru meira og minna óþarft og aðeins tæknilegt og jafnvel ekkert verið að nota þetta í íslenskum rétti. Mér finnst það skipta máli. Eða eru einhver dæmi um að þessar gerðir hafi verið notaðar í eldri útgáfunum, þ.e. að slík mál hafi komið til dómstóla og reynt hafi á fyrri gjörðir sem verið er að uppfæra hér? Gaman væri að heyra aðeins um það.

Svo er líka það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði um varðandi samtökin. Maður sér að ráðherra skal tilkynna um nafn og tilgang samtaka sem hann útnefnir til þess að fara með málin fyrir hönd íslenska ríkisins. Hefur hæstv. ráðherra einhver samtök í huga? Eru einhver samtök til sem eru tilnefnd til þess að fara með neytendarétt? Eru það Neytendasamtökin? Þetta eiga að vera frjáls samtök. Við erum oft að tala um þriðja geirann og viljum gjarnan styrkja hann þannig að hann hafi burði til að sinna hlutverki sínu. Hefur eitthvað slíkt komið fram eða hver á það að vera?

Síðan les maður í athugasemdum að færa eigi lista yfir tilskipanir inn í reglugerðir. Eru einhver dæmi um það sem er á þeim lista? Ég átti að vera í munnlegum fyrirspurnum í dag en því var breytt og því hef ég ekki haft tíma til að lesa öll bakgögnin á bak við þetta, en frumvarpið segir mér eiginlega ekki nokkurn skapaðan hlut um hvað þetta er.