143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[17:02]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aftur tek ég undir með þingmanninum. Þetta er eitthvað sem við eigum auðvitað að fara nokkuð nákvæmlega yfir á einhverjum tímapunkti og höfum við oft rætt í þessum sal að þessar gerðir séu oft þess eðlis að þær eru afar tæknilegar. Eins og kemur fram lýtur löggjöfin að gildandi lögum um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda. Mér er ekki kunnugt um það, og ég skal fullkanna það fyrir hv. þingmann, en mínar upplýsingar eru ekki á þá leið að til sé dæmi þar sem þetta hefur verið nýtt á þann hátt sem greint er frá í löggjöfinni. Þetta er auðvitað viðfangsefni sem kemur ekki oft til kasta okkar hér á hinu háa Alþingi.

Varðandi þau samtök sem nefnd eru í fyrirspurninni og spurt er um eru það þessi heildarsamtök og geta verið samtök eða stjórnvöld, eins og það er líka kallað í frumvarpinu, sem eru talin betur í stakk búin en ráðuneytið til að leita eftir lögbanni eða höfða dómsmál í slíkum málum. Þá er það alveg rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að undir það geta sannarlega fallið samtök eins og Neytendasamtökin, en líka önnur samtök sem koma að þeim verkefnum.

Það er auðvitað ákveðin tilfærsla frá hinu opinbera, þ.e. ráðuneytið mundi ekki lengur vera í forsvari fyrir það heldur viðkomandi samtök sem eru talin betur í stakk búin til þess að halda á því, en þó með því skýra markmiði, eins og nefnt var í fyrirspurninni áðan, að hafa það leiðarljósi og er það þá ríkisvaldið sem tekur ákvörðun um hina skilgreindu heildarhagsmuni neytenda.