143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[17:06]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Reyndar er þingið að fara að hefja hina ríku skilgreiningu sem við þurfum að fara í og lýtur að neytendamálum almennt á Íslandi. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að of margt á því sviði er hvorki nægilega vel skilgreint né nægilega skýrt. Þess vegna höfum við óskað eftir því í innanríkisráðuneytinu og ég hef sent bréf á alla þingflokka og óskað eftir tilnefningu í heildarendurskoðun á þeirri löggjöf sem við búum við og hef óskað eftir því við Brynhildi Pétursdóttur, hv. þm. Bjartrar framtíðar, að hún taki að sér forustu í þeim hópi. Hún hefur góðfúslega orðið við því. Þar er auðvitað verkefni að fara í gegnum þetta nákvæmlega og skilgreina það betur en við höfum gert og sannarlega fullt tilefni til.

Hv. þingmaður spurði hvort dæmi séu um að til þessa hafi komið og ítreka ég það sem ég sagði áður; mínar upplýsingar segja að svo sé ekki. En vegna þess að þingmaðurinn nefndi það þá er sjálfsagt að óska eftir því og við getum fengið dæmi annars staðar frá, klárlega, og hægt er að koma þeirri upptalningu til hv. allsherjar- og menntamálanefndar sem þingmaðurinn óskar eftir.

Eins og ég kom inn á í ræðu minni er þetta fyrst og síðast tæknileg útfærsla og breyting á gildandi lögum og sumt af þeirri löggjöf er sannarlega ekki eitthvað sem við beitum hér dags daglega og er náttúrlega sniðin í ríkara mæli en okkar eigin lög að eigin frumkvæði að stærri samfélögum en við búum í.