143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[17:09]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta mál lætur kannski engin ósköp yfir sér enda er þingskjalið ein örk. Ég get svo sem tekið undir að það hefði alveg mátt fylgja því aðeins meiri söguleg upprifjun og rökstuðningur, en það er þó ýmislegt sem vekur athygli í þessu máli.

Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að fara aðeins betur yfir nokkur atriði eða svara spurningum.

Í fyrsta lagi er það sem er lagt til í c-lið 1. gr., að ráðherra kveði á um það hvaða EES-gerðir falli undir viðauka við nefndartilskipun 2009/22/EB í reglugerð. Höfum við praktíserað þetta svona, að ráðherra fái einhvers konar vald til þess að ákveða hvaða gerðir falli undir viðauka sem hafa þar með réttaráhrif? Höfum við svigrúm til þess gagnvart samningsskuldbindingum okkar við EES-samninginn? Er sem sagt eitthvert val í þessum efnum? Getum við sigtað úr einhverjar tilteknar gerðir og ákveðið að þær skuli falla þarna undir og birtast í viðaukanum og aðrar ekki? Þetta kemur mér svolítið á óvart, en það getur vel verið að þetta sé allt í hinu besta lagi.

Í öðru lagi um aðalefnið sjálft — að hverfa frá því að ráðuneyti, ef ég skil þetta rétt, sé sá aðili sem geti farið fram á lögbann eða farið í mál og færa það yfir í að önnur stjórnvöld, einhver tiltekin stjórnvöld eða félagasamtök á sviði neytendamála, samkvæmt útnefningu ráðuneytisins, fái þann rétt sem tilskipunin kveður á um að fara í lögbannsaðgerðir eða fara til dómstóla með ágreining til að vernda meinta hagsmuni neytenda — fljótt á litið virðist það hljóma sem ígildi hópmálshöfðunar, að hægt verði að höfða mál fyrir hóp með þessum hætti, sem eru þá neytendur. Íslendingar hafa ekki notað það fyrirbæri mikið. Á þingi hefur oft verið rætt um bæði gjafsóknir og hópmálshöfðanir sem eru vanþróuð fyrirbæri í rétti okkar og lítið notuð. Ég vildi bara fræðast aðeins um það hvernig þetta gerist og gengur síðan fyrir sig. Er þetta í reynd einhvers konar hópmálshöfðun, þá fyrir hönd allra neytenda þegar um svona hluti er að ræða?

Síðan kemur í ljós nokkuð sem ég verð að játa að ég hafði ekki áttað mig á, að hér er ekki bara um að ræða að þetta verði hægt á Íslandi vegna hagsmuna íslenskra neytenda heldur er tilskipunin þannig úr garði gerð og hefur að því er virðist verið frá 2001, og verð ég bara að játa að ég var ekki þaullesinn í þessari tilskipun, kannski hefur þetta farið fram hjá mér á því herrans ári, að hún veitir erlendum stjórnvöldum og samtökum heimild til að setja lögbann eða höfða dómsmál hér á landi til að stöðva eða koma á annan hátt í veg fyrir háttsemi sem á sér stað á Íslandi og brýtur gegn framangreindum tilskipunum. En áhrif brotsins gætu komið fram í öðru ríki eða ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta er væntanlega öfugt, þ.e. við eigum samkvæmt tilskipuninni sama rétt út á við til málshöfðunar og lögbanns í öðrum löndum EES-svæðisins. Þau samtök sem hæstv. ráðherra mundi tilnefna ættu möguleika á því.

Þetta er dálítið fróðlegt mál. Ég er ekki viss um að menn hafi almennt áttað sig á því að þessir möguleikar stæðu opnir. Það verður líka fróðlegt að sjá hvernig þetta reynist ef frumvarpið verður að lögum og einhver samtök, sem fara með einhverja tiltekna hagsmuni neytenda, koma og óska eftir því að hæstv. ráðherra útnefni þau sem til þess bæran aðila til að krefjast lögbanns og/eða fara með ágreiningsmál fyrir dómstóla. Þetta er á sviði neytendaréttarins.

Nú höfum við til dæmis skilgreint íbúðalán, fasteignaveðlán, sem neytendalán og völdum þá leið fyrir alllöngu síðan. Þau hafa heldur betur komið við sögu og hvaða rétt neytendur gætu átt á grundvelli þeirrar löggjafar. Gæti til dæmis orðið niðurstaðan að Hagsmunasamtök heimilanna eða einhver slíkur aðili gerði kröfur um að vera tekinn sem fulltrúi neytenda á einhverju sviði, t.d. þeirra sem hafa tekið fasteignaveðlán til kaupa á húsnæði sem eru flokkuð sem neytendalán, og færi í aðgerðir af þessu tagi á þeim grundvelli?

Loks um ákvæði 3. gr. þar sem ráðuneytið losar sig undan þessu. Þess í stað tilkynnir Eftirlitsstofnun EFTA um nafn og tilgang samtaka sem ráðherrann útnefnir, nokkuð sem kann að verða sett í heimild þeirra í reglugerð. Er það útnefning eða tilnefning í hverju tilviki fyrir sig eða verður búinn til einhver listi yfir samtök sem væru til þess bær að fara með þetta hlutverk ef á reyndi? Verður þetta sem sagt varanleg tillaga? Leggur ráðherrann fram lista sem liggur hjá Eftirlitsstofnun EFTA, sem verður eftir atvikum uppfærður ef einhverjar breytingar verða, eða verður tilkynningarskylda í hverju tilviki fyrir sig ef reynir á einhver einstök mál?

Ég held að það væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra gæti brugðist við þessum spurningum.