143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[17:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það varð auðvitað býsna mikil umræða í kjölfar hrunsins um neytendavernd, m.a. neytendavernd á fjármálamarkaði, og ýmsar aðferðir við að styrkja rétt neytenda sem þá komust á dagskrá. Meðal þess voru hópmálsóknir sem maður sá kannski fyrir sér í upphafi með þeim hætti að þar væru tækifæri fyrir neytendur til að bindast samtökum um að taka sig saman og sækja eða verja rétt sinn eftir atvikum fyrir dómstólum. Vegna þess að það gæti verið viðurhlutamikið og við stóra aðila að eiga gæti verið mikið í það að sækja fyrir fólk að geta tekið saman höndum í þessu efni og deilt með sér kostnaði við það og annað þess háttar.

Þegar hins vegar kemur að framkvæmdinni í okkar umhverfi gætir þess nokkuð að til málatilbúnaðar af þessu tagi sé ekki endilega stofnað fyrir frumkvæði neytendanna sjálfra, heldur geti einstaka lögmenn og þá augljóslega í sumum tilfellum hreinlega í verkefnaöflunarskyni farið í einhvers konar kynningar- og markaðsherferðir til að safna sér viðskiptavinum í málshöfðunartilgangi.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af þeirri þróun og (Forseti hringir.) hvort ekki sé hætta á að þeir séu ekki (Forseti hringir.) varðir eða sóttir af þeim lögmönnum (Forseti hringir.) sem færastir eru hverju sinni.