143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[17:21]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ákvað að vekja máls á þessu hér því að það hefur orðið mér umhugsunarefni eftir að hafa séð auglýst í blöðunum eftir fólki sem er tilbúið að taka þátt í því að kosta málsóknir á vegum einhverra tiltekinna lögmanna. Ég held að það sé að ýmsu leyti varhugaverð þróun vegna þess að það sem skiptir máli, t.d. í þeim málum sem við hv. þingmaður þekkjum vel frá eftirstöðvum hrunsins, málum sem varða málaferli við fjármálakerfið þar sem sækjandinn, fjármálafyrirtækin, býr að bestu lögfræðingum landsins er ákveðin hætta því samfara ef neytendurnir eru ekki líka varðir af hæfustu lögfræðingum. Það eru alla jafna ekki þeir sem störfum eru hlaðnir sakir sérþekkingar sinnar sem leita eftir viðskiptavinum í hópmálsóknir. Þess vegna er ástæða til að skoða að minnsta kosti mjög vel hvert og eitt dæmi í þessu tilfelli.

Auðvitað er mikilvægt að virkja félagasamtök eins og kostur er, bæði á þessu sviði og öðrum. Ég heyrði hv. þingmann nefna Hagsmunasamtök heimilanna í þessu sambandi. Það væri áhugavert að heyra frá hv. þingmanni hvort hann sjái fyrir sér að þau gætu haft hér hlutverki að gegna. Ég veit að þingmaðurinn rak sig á það sem ráðherra að hérlendis skortir mjög mikið á í neytendavernd á fjármálamarkaði. Margir aðilar fara þar með hlutverk og ekki er öllum ljóst hver eigi að gera hvað í því efni. Kannski gætu félagasamtök hjálpað fólki við að sækja rétt sinn í því flókna umhverfi.