143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[17:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sjálfsagt gæti komið til þess að menn sæju þörf á að skilgreina hvaða skilyrði félagasamtök yrðu að uppfylla til að þau teldust bær til að fara með málefni neytenda eða einhvers afmarkaðs hóps neytenda. Menn hafa nefnt Neytendasamtökin. Ég geri ekki ráð fyrir að neinn geri athugasemdir við að þau séu þannig uppbyggð, hafi þannig skipulag og markmið með starfsemi sinni að það sé óumdeilt að þau væru til þess bær að taka upp einhver mál neytenda.

Síðan höfum við séð ýmsa hópa spretta upp, stærri og minni félög, þar sem menn hafa sett á sig göfugt nafn. Við vitum hins vegar minna um hvað á bak við stendur í formi félaga, skipulags eða samþykkta. Ég býst við að það gæti orðið nokkur hausverkur að búa til einhverjar viðmiðanir varðandi þann þátt málsins, hvaða skilyrði svona aðili yrði að uppfylla.

Ég tek alveg undir hugsunina um að lögmenn auglýsi eftir fólki til að borga fyrir sig málaferli og þokkaleg málsvarnarlaun. Manni finnst ekki skemmtilegur aðdragandi að slíku ef það er þannig sem það á að gerast. Það dregur athyglina að öðru sem hér varð tilefni orðaskipta áðan milli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og hæstv. ráðherra. Fá þau félagasamtök sem taka að sér þetta hlutverk einhvern stuðning til þess? Fengju þau fjárstuðning frá hinu opinbera til að sækja viðkomandi mál? Þau þyrftu þá ekki að skrapa saman fyrir því hjá félagsmönnum sínum eða selja sig einhverjum lögmönnum sem byðu það út í verktöku að reka slíkt.

Ef við nálgumst þetta frá þeim sjónarhóli sem ég heyri hæstv. ráðherra gera hér í svari, að það geti verið mjög mikilvægt hlutverk að fá skorið úr réttaróvissu eða ágreiningi á einhverju sviði (Forseti hringir.) og félagasamtökin væru besti aðilinn til þess að reka málið, eru þau þá ekki að sinna (Forseti hringir.) mikilvægu hlutverki sem eðlilegt er að þau fái stuðning til að gera?