143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[17:28]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Þingmenn hafa spurt hvort þetta hafi verið nýtt. Hagsmunasamtök heimilanna fóru fram á lögbann fyrir líklega tveim árum á grundvelli þeirra laga sem er verið að breyta núna. Hæstiréttur hafnaði lögbanninu á þeirri forsendu að neytendur, í þessu tilfelli lántakendur með húsnæðislán, gætu farið fram á skaðabætur síðar þó að það væri búið að svipta þá húsinu sínu.

Það er það sem Hæstiréttur sagði. En jafnframt staðfesti hann að heimildin sem ráðuneytið hafði eins og lögin standa núna gat leyft öðrum aðilum að fara með það vald að krefjast lögbanns og dómsmáls á grundvelli þessara laga. Ráðuneytið hafði heimilað Neytendastofu að gera það sem og Hagsmunasamtökum heimilanna. Ég veit ekki með Neytendasamtökin. En þessir tveir aðilar höfðu að minnsta kosti fengið þessa heimild frá ráðherra.

Það sem mér sýnist vera að gerast í þessum lögum núna er að verið er að færa þetta frá ráðuneytinu þar sem ráðuneytið getur samkvæmt lögunum í dag farið af stað með lögbann og dómsmál. Það er verið að færa það frá ráðuneytinu til stjórnvalda sem ráðuneytið skipar eða félagasamtaka sem geta síðan farið af stað með þetta en þá á þeim grundvelli að hið opinbera borgi fyrir það.

Þetta hefur ekki verið þannig. Þetta er til að svara spurningu manna um það hvernig þetta hefur verið. Svona var þetta útskýrt fyrir mér af stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna sem ég hef verið í góðu samstarfi við.