143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[17:46]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að hann nefnir einmitt það sem oft hefur verið tilhneiging hjá okkur öllum, ég ætla ekki að undanskilja mig hvað það varðar, að stundum stöndum við frammi fyrir þessum ESB-samþykktum og innleiðingum eða tilskipunum eða hvað það heitir, og segjum: Við eigum ekkert val, þetta er bara svona. Og svo látum við það bara renna í gegn.

Ég held að það sé full ástæða til að taka undir þá hugmyndafræði og raunar hefur það verið kynnt fyrir hv. nefndum Alþingis hvernig svona innleiðing á sér stað, þ.e. á hvaða tímapunkti menn geta haft áhrif á þróun mála og sett fram fyrirvara eða reynt að hafa áhrif. En það kostar auðvitað mannafla og vöktun á því hvaða mál koma inn og krefst miklu meiri vinnu af hálfu þingsins, enda má skilja það þannig að í Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar sé leitast við að búa til lítið Evrópusamband án þess að vera í Evrópusambandinu, þ.e. að hér eigi að styrkja alla liði til þess að geta gegnt því hlutverki sem kæmi af sjálfu sér ef maður væri beinn aðili að sambandinu.

En að svarinu, ég gleymdi að minnast á það í ræðu sem hv. þingmaður vakti athygli á að í inngangi í athugasemdum við lagafrumvarpið stendur, með leyfi forseta:

„Þar sem efnislegar breytingar eru litlar og ekki íþyngjandi gagnvart hagsmunaaðilum var ekki talin þörf á sérstöku samráði við gerð þess.“

Við erum einmitt að ræða um þau félög sem hugsanlega þyrfti að leita til o.s.frv. og því kemur þetta mér á óvart. Ég held að það hefði a.m.k. þurft að vera búið að vinna þessar skilgreiningar að einhverju leyti áður og jafnvel gera drög að reglugerðum sem mundu svo fylgja frumvarpinu þannig að menn vissu hvaða afleiðingar þetta hefði. Það krefst betri skýringa af hverju þessu var sleppt. Var það bara vegna þess að við töldum jafnvel að þetta gengi hvort sem er yfir okkur og því þyrftum við ekki að hafa skoðun á þessu?

En af hverju innanríkisráðuneytið eitt er nefnt kann ég ekki svar við.