143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[17:48]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi innanríkisráðuneytið. Ég vil beina því til hv. þingmanns, af því að ég veit að hann á sæti í allsherjar- og menntamálanefnd, að kalla eftir svörum um það atriði í nefndinni. En það slær mig þannig að ef eitthvað er þá er frekar verið að fækka þeim aðilum, stjórnvöldum sem hafa þann möguleika að fara fram á lögbann eða höfða dómsmál til verndar heildarhagsmunum neytenda með því að taka ráðuneytið út. Ég hefði talið að það væri þá bara eitt stjórnvaldið í viðbót sem hefði þann rétt og þar með væri hagsmunum neytenda betur fyrir komið.

Í gildandi reglum eru tilnefnd stjórnvöld eftirfarandi: Innanríkisráðuneytið, Neytendastofa, Lyfjastofnun, fjölmiðlanefnd og talsmaður neytenda. Nú hefur einhverju af þessu verið slegið saman og þarna er kannski verið að fækka stofnunum þannig að mér finnst að nefndin þurfi að fara rækilega yfir það. Hugsanlega ættu fleiri stjórnvöld hugsanlega að hafa þennan rétt og tilnefnd samtök eru samkvæmt gildandi reglum Neytendasamtökin, Félag íslenskra bifreiðaeigenda, Alþýðusamband Íslands og Hagsmunasamtök heimilanna.

Ég velti líka fyrir mér: Er þetta allt og sumt þegar verið er að tala um hagsmuni neytenda? Mér finnst þetta vera á takmörkuðu sviði. Þegar t.d. er verið að tala um launþegahreyfinguna er Alþýðusambandið nefnt en fjölmörg stór launþegafélög eru með félagsmenn utan Alþýðusambandsins. Ég velti því bara fyrir mér hvort þarna sé nægilega langt gengið, bæði í gildandi reglum og eins með þessu frumvarpi hér og hvort verið sé að takmarka rétt neytenda. Svo velti ég líka fyrir mér almennt: Hver er þá réttur einstaklingsins í þessu efni? Á hann engan rétt ef hann getur sýnt fram á að málið varði hagsmuni hans að einhverju leyti?