143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[17:55]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég hefði kannski betur tjáð skoðanir mínar. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að þessi samtök skipti gríðarlega miklu máli í íslensku samfélagi. Ég sagði það til dæmis oft um sjúklingasamtök. Ef slík samtök væru ekki til gætti enginn hagsmuna þessara hópa sérstaklega.

Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi einmitt að setja lög og reglur um samtök sem hafa sannað sig til að þau geti orðið opin samtök og formið sé allt til staðar, reglur og annað, þau skili ársreikningum, hafi bókhald opið og gegnsætt o.s.frv. Ég var til dæmis þeirrar skoðunar að það ætti að gera samninga við þessi félög. Andstætt því að verkefnabinda stuðninginn, sem margir töldu að ætti að gera, vildi ég tryggja að samtökin gætu átt sér samastað og einhvern starfsmann sem gegndi því hlutverki að vinna fyrir samtökin til að gæta hagsmuna þeirra. Í sumum tilfellum hefur þetta verið gert og þá hafa samtök slegið saman og rekið saman skrifstofur og gert þetta með mjög hagkvæmum hætti. Bara það að vita að ákveðnir aðilar stæðu vaktina hvað varðar frumvörp frá ríkinu, framkvæmdir frá ríkinu og hefðu eftirlit með starfseminni mundi skipta mjög miklu máli.

Við skulum átta okkur á því að það eru miklir peningar í þessu. Frá Alþingi hafa í gegnum árin komið framlög til slíkra félaga sem skipta hundruðum milljóna. Ég hef viljað formgera þau með skipulegum hætti til þess að stroka út félög sem eiga ekkert að vera þar en fyrst og fremst til þess að styrkja þau sem gegna ákveðnu hlutverki. Þau ættu að hafa stöðuna að vera fulltrúar ríkisins. Mér koma í hug félög eldri borgara, landssamtök þeirra. Þá styrkir maður þau en ekki einstök félög í sveitarfélögum um allt land. Þar með eru þau samtök orðin formlegur aðili sem ríkið ætlast til að standi (Forseti hringir.) vaktina gagnvart réttindum þessa hóps gagnvart ríkinu.