143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[18:02]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi fara nokkrum orðum um þetta frumvarp við 1. umr. málsins. Þótt það sé ekki mikið að vöxtum og láti lítið yfir sér snertir það fjölmarga þætti sem vert er að nefna hér. Í umræðunni hefur dálítið verið rætt um form þeirra frumvarpa sem eru innleiðingarfrumvörp á Evróputilskipunum og ég verð að taka undir það sem hér hefur verið sagt að það sé svo sem ekki fyrir óinnvígða að lesa sér til gagns frumvörp af þessum toga og greinargerðir með þeim. Ég held satt að segja, án þess að það eigi sérstaklega við þetta frumvarp umfram ýmis önnur sem maður hefur séð, að það sé full ástæða til að breyta formi lagafrumvarpa sem fela í sér breytingar á gildandi lögum og láta fylgja það sem á erlendu máli heitir „track changes“-útgáfa svo að ólögfrótt fólk og venjulegir borgarar geti glöggvað sig betur á því hvaða breytingar sé verið að gera og lögin séu að öðru leyti öllum ljós í sama skjali og menn átti sig á hvert heildarumfang breytinganna sé. Ég held satt að segja að þetta sé orðið þannig að ástæða sé til að breyta einfaldlega reglum um framlagningu frumvarpa að þessu leyti.

Í þessu máli er verið að innleiða tilskipun sem felur í sér tiltekin réttindi til handa frjálsum félagasamtökum sem við höfum kallað almannaheillasamtök á íslensku. Menn sjá það á umbúnaði þessa máls að það er klassískt dæmi um innleiðingarvandann sem við er að eiga á Íslandi. Tilskipunin hefur verið innleidd með því að samþykkt hafa verið sérstök lög um nákvæmlega það sem hún hljóðar upp á til að uppfylla kröfurnar að utan. Engin ríkari hugsun hefur farið í það að skilgreina að öðru leyti umgjörð almannaheillasamtaka.

Auðvitað er það alveg rétt sem hefur komið fram í umræðum að í gangi er og hefur verið á undanförnum árum vinna í ýmsum ráðuneytum, félags- og tryggingamálaráðuneytinu á sínum tíma og síðan í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og ég held í fjármálaráðuneytinu núna frekar en innanríkisráðuneytinu, ég er ekki viss um á hvorum staðnum það er vistað núna, að nýrri löggjöf um almannaheillasamtök.

Það er fráleitt að setja í lög á mörgum stöðum ákvæði um almannaheillasamtök. Það blasir við að sérstök lög um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda stenst enga skynsemi. Það væri miklu eðlilegra að þessi ákvæði væru hluti af heildarumgjörð um almannaheillasamtök.

Það er auðvitað ekki til vitnis um mikinn metnað í Evrópustefnu núverandi ríkisstjórnar að helsta markmið þeirrar stefnu sé að verða fljótari að innleiða og hrinda í framkvæmd að óathuguðu máli tilskipunum sem við höfum ekki haft aðkomu að.

Mér finnst jákvætt, svo ég tali nú sérstaklega um efnisákvæði frumvarpsins, að í 3. gr. skuli vera fallið frá því fyrirkomulagi sem hefur verið í lögum að ráðuneytið sjálft geti leitað lögbanns eða höfðað dómsmál fyrir yfirvöldum eða dómstólum hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu til að vernda heildarhagsmuni neytenda. Það kom mér algerlega í opna skjöldu þegar umræður byrjuðu hér á síðasta kjörtímabili um þessa heimild og menn sáu í henni alls konar tækifæri til að gera hitt og þetta til að hafa áhrif á mál sem vörðuðu hagsmuni neytenda. Ráðuneyti er í sjálfu sér ekki sérstaklega vel í stakk búið til að ákveða hvort gera eigi kröfu um lögbann vegna einhverra atburða og gæti lent í mjög sérkennilegum aðstæðum. Ráðuneyti sem fer með nauðungarsölur, svo dæmi sé nefnt sem er ekki sérlega fjarlægt, gæti samkvæmt því ákvæði sem nú er verið að fella burt þurft að gera kröfu um lögbann á framkvæmd einhverra slíkra þvingunarúrræða sem heyra undir ráðuneytið sjálft. Ég held þess vegna að þetta ákvæði í lögunum hafi alltaf verið eins og hortittur sem ekki hafi verið raunsætt að hafa þar inni út frá íslenskri lagahefð og stjórnskipan.

Með sama hætti langar mig að fjalla aðeins um það hvernig listinn gæti litið út sem hér er verið að ræða að ráðuneytið haldi vegna þess að hann snýr að grundvallarhagsmunum þeirra almannaheillasamtaka sem gætu nýtt sér ákvæði laganna til málshöfðana eða til að leita lögbanns hér eða í öðrum löndum. Það er augljóst, eins og ég sagði hér áðan, að hafa þarf einhver tengsl við almannaheillalöggjöf sem nú er í smíðum. Í þeirri löggjöf þurfa að vera ákvæði þar um vegna þess að hún þarf auðvitað að mæta fjölbreyttum þörfum ríkisins og þjóðarinnar fyrir löggjöf á þessu sviði. Þarfirnar eru ekki einhlítar, þær lúta ekki bara að því að skapa félögunum réttindi heldur mæla líka fyrir um þær skyldur sem félög þurfa að axla vilji þau raunverulega teljast almannaheillasamtök en ekki einhvers konar rassvasafélög tiltekinna einstaklinga eða hagsmunahópa sem geti búið til stórt nafn utan um lítinn bakgrunn.

Við höfum sorglega reynslu ríkisins af viðskiptum við almannaheillasamtök sem hafa gefið sig út fyrir að vera almannaheillasamtök en ekki staðið undir því og misfarið alvarlega með það traust sem þeim hefur verið sýnt. Við höfum dæmi um ofbeldi gagnvart fólki sem hefur verið boðið meðferðarúrræði hjá samtökum sem hafa síðan ekki reynst standa undir þeim merkimiða eða því sem ætti að vera sjálfsögð umgjörð fyrir almannaheillasamtök. Þess vegna held ég að það sé óhjákvæmilegt í löggjöf um almannaheillasamtök að fjalla ítarlega um skyldur þeirra. Þau þurfi t.d. að hafa opið bókhald. Það sé ekki þannig að þeir sem standa að baki þeim geti tekið út úr þeim pening í eigin þágu. Fjárhagur þeirra þarf þar af leiðandi að vera opinber, stjórnskipulag þeirra öllum ljóst og þau kynnt með aðgengilegum hætti á netinu og skráð í einhverja skrá þannig að félagaskrá þeirra sé aðgengileg að einhverju leyti þótt hún sé ekki opinber sem slík. Mönnum er frjálst að vera félagar í samtökum og í sjálfu sér á það ekki að vera nauðsynlega opinbert gagn í hvaða félagi hver og einn einstaklingur er, en félagaskráin þarf að vera sannreynanleg þannig tölur sem eru gefnar út um fjölda félaga séu raunverulegar og eftirlitsaðilar geti sannreynt það.

Þau félög sem láta sérstaklega hagsmuni neytenda til sín taka þurfa að lúta öllum þessum almennu skilyrðum og njóta til viðbótar þeirra réttinda sem kveðið er á um í þessum lögum og felst í skráningu á þennan víðfræga lista. Það er líka rétt að slá þann varnagla að takmörk séu fyrir því hversu langt sé hægt að ganga í þessu efni. Það verður auðvitað að tryggja mögulega nýliðun á þessu sviði svo að ný almannaheillasamtök geti orðið til. Við getum séð fyrir okkur einhverja uppákomu eins og misgengið mikla í kjölfar bankahrunsins þegar ný hagsmunasamtök urðu til sem voru ekki til áður og vildu gæta hagsmuna þeirra sem töldu sig hlunnfarna í þeim miklu samfélagshræringum. Listinn má því ekki vera tæmandi. Það þarf þess vegna líka að setja í löggjöf skilyrði fyrir að komast á lista af þessum toga og skilyrði fyrir því að öðlast slík réttindi sem hið opinbera annaðhvort veitir beint eða eins og í þessu tilviki Evrópulöggjöfin veitir vegna þess grunneðlis Evrópusamstarfsins að hefta vald ríkisstjórna yfir eigin borgurum, skapa aukna lýðræðislega aðkomu almannaheillasamtaka að ákvörðunum. Við erum því nú í sjálfu sér blessunarlega nauðbeygð til að hrinda í framkvæmd hluta af slíku regluverki þótt maður geti haft ákveðnar efasemdir um það með hvaða hætti það verður nákvæmlega gert í einstökum tilvikum.