143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[18:24]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það eru kostir og gallar við þetta frumvarp. Við skulum byrja á kostunum. Kostirnir virðast vera þeir að ráðuneytið felur stjórnvöldum eða hagsmunasamtökum að leita lögbanns eða höfða dómsmál og greiðir kostnaðinn. Þannig er það ekki í dag, stjórnvöld greiða ekki kostnaðinn. Stjórnvöld koma þá að því að greiða kostnaðinn ef þetta verður samþykkt og þá er hægt að þrýsta á stjórnvöld og þrýsta á ráðuneytið sem veitir stjórnvöldum og hagsmunasamtökum þessa heimild að veita hana og í kjölfarið greiða stjórnvöld fyrir. Það er kostur.

Gallinn þarna gæti verið, eins og hefur komið fram í málum þingmanna, hvað felst nákvæmlega í þessu. Heimild sem er gefin út einu sinni eins og núna situr og til dæmis Hagsmunasamtök heimilanna og Neytendastofa og talsmaður neytenda, sem var, höfðu slíka heimild. Það þarf að tryggja að svoleiðis verði fyrirkomulagið áfram þannig að, eins og kemur fram, þegar ráðherra tilkynnir Eftirlitsstofnun EFTA nafn og tilgang samtaka sem hann útnefnir samkvæmt þessari grein hafi þessi samtök heimildina í einhvern lengri tíma en ekki aðeins í hverju og einu tilviki.

Svo er það eitt annað. Það kemur fram í 1. gr. að ráðherra kveður á um hvaða EES-gerðir falla undir viðauka við tilskipunina. Verið er að færa allar tilskipanirnar, öll þessi atriði, úr lögunum og inn í viðauka, eitthvað sem ráðherra getur kveðið á um. Það verður að passa varðandi túlkun á því að ráðherra kveði á um hvaða EES-gerðir falla undir viðaukann að alveg skýrt sé að öll þau atriði sem nefnd eru sem mögulega brjóta samningsskilmála og slíkt og heimila að leitað sé lögbanns eða dómsmál höfðað, að öll þau atriði sem eru núna í lögum séu innifalin og rati öll áfram í þessa reglugerð. Ráðherra getur ekki látið undir höfuð leggjast að uppfæra þennan lista.

Annars er ég að mestu leyti ánægður með frumvarpið og mitt fólk, mitt bakland hefur skoðað það, en það eru þessi atriði sem ég vildi nefna sérstaklega.