143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[18:27]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa ágætu og ítarlegu umræðu sem ég vona að skili sér til hv. allsherjar- og menntamálanefndar sem tekur málið til meðferðar og margt af því sem hefur verið nefnt í umræðunni verður án efa tekið til nokkurrar umfjöllunar og umræðu þar.

Ég ætla að staldra við nokkra þætti sem hafa verið nefndir og eru kannski eitthvað sem allir hafa nefnt og eru sameiginlegir í umræðunni. Ég ætla ekki að reyna að taka sérstakan slag við þingmenn út af þeim. Ég held að við getum öll verið sammála um að hin svokölluðu innleiðingarfrumvörp sem við vinnum gjarnan með eru hvorki sérstaklega skýr gjörningur oft og tíðum né til þess fallin að til dæmis leikmenn átti sig á þeim fljótt og örugglega. Hins vegar bendi ég þingmönnum á, og ég veit að ég þarf ekki að gera það, að hér er verið að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á fyrirliggjandi lögum og mjög margt af því sem þingmenn hafa spurt um í umræðunni er í gildandi lögum og felur í sér að oftar en ekki er talið ágætt að þingmenn beri saman þau lög sem til staðar eru og það frumvarp sem liggur fyrir og er til breytingar.

Það breytir þó engu þar um að þetta er auðvitað, eins og margir hafa komið inn á og það oft, nokkuð tæknilegt. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson las til dæmis upp úr frumvarpinu og ég hvet hann til að gera það sama við önnur frumvörp sem eru svipaðrar gerðar um innleiðingar vegna þess að þau eru því miður flestöll með sama yfirbragði. Það er eitthvað sem ég hvet þingið til að fara yfir og okkur öll í sameiningu ef við viljum gera á því róttækar og mikilvægar breytingar. Ég ætla ekki að setja mig gegn því en minni á að hér er frumvarp til laga um breytingu á gildandi lögum og mjög margt af því sem þingmenn nefndu, t.d. þær gerðir sem nú verða í viðauka eða reglugerð í staðinn fyrir að vera í löggjöfinni, er talið upp í gildandi lögum. Ég get lesið það upp en kýs að líta svo á að þingmenn geti skoðað það. Þar eru þær gerðir eða tilskipanir sem lögin gilda um og ég taldi ekki ástæðu áðan til að eyða tíma þingsins í að lesa þær upp. Þær eru í gildandi lögum. Ég ætla að reyna að svara því sem helst hefur verið spurt um.

Það hefur verið spurt um hvaða EES-gerðir falla undir viðaukann. Það er í gildandi lögum og komi til breytinga á þeim tilskipunum eða viðbætur getur ráðherra í gegnum reglugerð og viðauka sett það inn án þess að flytja frumvarp til breytinga á gildandi lögum. Ég ætla ekki að telja upp þær gerðir sem eru 12 talsins í gildandi lögum.

Það var líka spurt hvaða þjóðir hafa farið sömu leið. Í Noregi er farin nákvæmlega sama leið og er lögð til í þessum breytingum og við höfum mjög oft hallað okkur að aðferðum þeirra hvað þetta varðar. Þar eru þessar gerðir líka taldar upp í viðauka og reglugerð og víða annars staðar, en við byggjum þetta á fyrirmynd frá Noregi.

Síðan var nokkuð talað um hvernig þetta mundi gerast o.s.frv. Það er engin sérstök breyting á því fyrirkomulagi frá gildandi lögum. Það er sams konar fyrirkomulag og verið hefur og líkt og komið hefur fram hjá mörgum þingmönnum og af því að menn velta því mikið fyrir sér hvaða stjórnvöld þetta eru og hvort stjórnvöld hafi tilkynnt til EFTA hvaða aðilar séu gild samtök o.s.frv., þá er ríkisvaldinu skylt samkvæmt lögum að tilkynna það. Það hefur alltaf verið gert á grundvelli gildandi laga. Þessi tilnefndu stjórnvöld eru innanríkisráðuneytið, Neytendastofa, Lyfjastofnun og fjölmiðlanefnd og síðan eru það þau samtök sem einnig hafa verið tilkynnt til EFTA og eru þar skyldusamtök og það eru Neytendasamtökin, Félag íslenskra bifreiðaeigenda, ASÍ og Hagsmunasamtök heimilanna. Þetta eru þau samtök sem hafa verið tilkynnt löglega af hálfu íslenskra stjórnvalda og hefur verið þannig í lögum um nokkurra skeið og ekki eru fyrirhugaðar efnislegar breytingar á því. Það gæti þó auðvitað, eins og kom vel fram í máli hv. þm. Árna Páls Árnasonar, komið til ákveðinna breytinga á því og ég tek undir það með þingmanninum sem ræddi um almannahagsmuni, samtök hér o.s.frv. að það mál ætti að ræða enn frekar í nefndinni. Slík löggjöf heyrir ekki undir innanríkisráðuneytið en er eitthvað sem menn geta að sjálfsögðu skoðað.

Hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir nefndi að talsmaður neytenda hafi á sínum tíma skoðað þetta lítillega en það er ekki fordæmi fyrir því að sú leið hafi verið farin og eins og hún sagði líka eru kannski ekki sérstaklega miklar líkur á því að þetta verði notað mjög oft. Engu að síður þarf það að vera í löggjöfinni og aftur getum við tekist á um það hvort við séum of mikið undir hælnum á því að vera aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Því fylgja kostir og gallar og þetta er ein af þeim löggjöfunum sem við verðum að innleiða og bæta lögin okkar eins og þau eru í dag. En það er alveg rétt hjá hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur að þetta hefur ekki verið notað og það er líka rétt hjá henni að talsmaður neytenda skoðaði það lítillega á sínum tíma og úr því varð ekki.

Síðan ítreka ég það sem ég sagði áðan um lista yfir hagsmunaaðila sem er til staðar og hefur að sjálfsögðu verið tilkynntur, enda er það í samræmi við íslensk lög. Nokkuð hefur verið rætt um hvort hér sé á ferðinni hóplögsókn á einhvern hátt en þetta er ekki hugsað þannig. Þetta er hugsað þannig að íslensk stjórnvöld eða stjórnvöld í öðru ríki meti það á einhverjum tíma sem skaðlegt fyrir það sem þessi lög ganga út á, lög um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda. Það er þannig um stórmál sem ríkisvaldið telur að varði heildarhagsmuni neytenda í viðkomandi landi og þá er gripið til þessara aðgerða. Ríkisvaldið þarf því að meta það svo og það er ekki þannig að hópur af einstaklingum geti tekið sig saman og ákveðið að ganga inn í þessa löggjöf eða nýta það.

Svo nefndi hv. þm. Guðbjartur Hannesson, og fleiri töluðu reyndar talsvert um það, sjálfstæð og frjáls félagasamtök og að þau væru vanbúin til að innleiða þetta. Ég endurtek það sem ég sagði áðan, það er listi sem stjórnvöld eru skyldug til og hafa tilkynnt mjög reglulega um. Þau eru hvorki vanbúin né þess eðlis að þau ráða ekki við þá hluti og auðvitað væri það þá ráðuneytisins sem tilnefnir viðkomandi aðila að tryggja að þau félagasamtök væru í stakk búin til þess, og öll þau samtök sem ég las upp áðan eru að fullu búin til að takast á við slíkt verkefni kæmi til þess. En hafi þingheimur áhuga á því og telji mikilvægt að skýra þetta betur er hægt að ræða það í þingnefndinni og fara yfir það.

Ég vil líka árétta það sem komið hefur fram og hv. þm. Árni Páll Árnason fór vel yfir í máli sínu. Ég tek undir þetta með honum en það var nokkur umræða um það og hv. þm. Árni Þór Árnason — Sigurðsson, fyrirgefðu hv. þingmaður — spurði sérstaklega að því hvort ekki ætti að taka innanríkisráðuneytið út af listanum í þessu samhengi. Það hefur ekki verið talið, og það er náttúrlega það sem frumvarpið byggir á og ég er sammála því, að ráðuneytið ætti að vera að blanda sér í deilur milli einkaaðila hvað þetta varðar. Það hefur fyrst og fremst verið litið á það sem hlutverk ráðuneytisins að hafa eftirlit með þeim aðilum sem hafa heimild til að leita lögbanns. Það breytir þó engu um listann sem ég nefndi áðan og hefur verið tilkynntur reglulega samkvæmt lögum. Innanríkisráðuneytið er einn af þeim aðilum sem tilnefndir eru á lista yfir umrædd stjórnvöld.

Hv. þm. Árni Páll Árnason — nú fer ég að hafa áhyggjur af því að ég rangfeðri fleiri en ég var einhvern veginn með það í huga að feðra þingmanninn á sama hátt og hv. þm. Árna Pál Árnason — nefndi það sem ég tek undir og legg áherslu á, breyta þarf formi lagafrumvarpa svo þau verði læsilegri og auðskiljanlegri. Við förum klárlega í það verkefni en þetta á því miður ekki einungis við um þetta frumvarp heldur miklu fleiri og það er vinnuregla sem ég hvet þingmenn til að skoða í sameiningu.

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég hef sagt. Ég held að ég sé búin að fara yfir þær beinu spurningar sem til mín var beint. Ég ætla ekki að þreyta þingheim með því að lesa upp lögin sem þessi lög eiga að breyta, en þar kemur afar margt fram af því sem hv. þingmenn nefna til upptalningar og til skýringar og ég held að við getum verið sammála um það. Oft eru þetta frekar snöggsoðnar tilkynningar þegar þær eru settar upp á þennan hátt og þegar unnið er að því, eins og við köllum það, að innleiða EES-gerðir. Ég held reyndar og tek undir með hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur hvað það varðar að þrátt fyrir að við getum andvarpað yfir enn einni innleiðingunni, sem við gerum stundum úr þessum ræðustóli, sé þetta til góðs. Ég held að þetta styrki þá stöðu sem neytendamálin þurfa að vera í og tek undir að það sé löngu orðið tímabært. Ég bind miklar vonir við þá þverpólitísku þingmannanefnd sem nú fer í það verkefni að endurskoða umrædda heildarlöggjöf. Ég held að innleiðingin sem hér er lögð fram og fer núna vonandi til ítarlegrar umfjöllunar eða umræðu á vettvangi hv. allsherjar- og menntamálanefndar sé til góðs fyrir málaflokkinn.