143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[18:38]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997. Frumvarpið snýr einkum að breytingu á lögunum í þá veru að styrkja kirkjuþing og skýra stöðu þess betur og færa stjórn fjármála þjóðkirkjunnar til kirkjuþings.

Forsaga málsins er sú að endurskoðun þjóðkirkjulaganna hefur staðið yfir frá árinu 2007 en þá kaus kirkjuþing nefnd til að endurskoða lögin. Önnur nefnd var síðan kosin árið 2012 sem lagði fram frumvarp að nýjum þjóðkirkjulögum á kirkjuþingi 2013. Frumvarpið hefur ekki hlotið afgreiðslu á kirkjuþingi enn þá, enda málið umfangsmikið og þarf betri og ítarlegri umræðu á þeim vettvangi en náðst hefur nú.

Með setningu núgildandi laga var sjálfstæði kirkjunnar hins vegar aukið verulega og ég tel rétt að halda þeirri þróun áfram. Eftir tilvikum og eftir því sem við á er hægt að færa aukin völd og aukna ábyrgð frá ráðuneytinu, þ.e. innanríkisráðuneytinu, til kirkjunnar og í öðrum tilvikum er hægt að auka völd kirkjuþings sem verður samkvæmt þessu æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar. Það er jafnframt í takt við aðra lýðræðisþróun í samfélaginu.

Á kirkjuþingi hefur ítrekað komið fram að þrátt fyrir að ekki hafi tekist að ljúka heildarendurskoðuninni sem hófst árið 2007 sé nauðsynlegt að breyta tilteknum atriðum í núgildandi lögum, m.a. til einföldunar og hagræðingar í rekstri þjóðkirkjunnar. Í þeim tilgangi að styrkja stöðu kirkjuþings, skýra stöðu þess betur og færa til að mynda stjórn fjármála til þingsins þurfa tilteknar breytingar að ná fram að ganga og þær eru lagðar til í því frumvarpi sem ég legg hér fram.

Helstu breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi eru í 1. og 2. gr. frumvarpsins lagðar til breytingar á því hvernig taka skuli á agamálum og siðferðismálum innan þjóðkirkjunnar og ágreiningsmálum sem upp kunna að koma af þeim sökum, en mál þessi heyra í dag undir biskup Íslands og einnig undir úrskurðar- og áfrýjunarnefndir. Þannig er lagt til að úrskurðar- og áfrýjunarnefndir verði lagðar niður en í staðinn setji kirkjuþing starfsreglur samkvæmt 59. gr. laganna um kirkjuaga og úrræði um lausn ágreiningsmála sem upp kunna að koma á þeim vettvangi. Með því að setja úrræði um þessi mál í starfsreglur telja kirkjuyfirvöld og kirkjuþing að unnt verði að skerpa á því í hvaða farveg kvörtunar- og kærumál eiga að fara. Reynslan af úrskurðarnefnd er sú að ekki hafi alltaf verið ljóst hvaða mál heyri undir nefndina og hvaða mál undir agavald biskups. Ef upp kemur ágreiningur um slíkt bitnar hann ekki síst á þeim sem leggur fram kvörtun eða kæru og slíkt er óásættanlegt. Einnig er það talið í anda laganna og sjálfstæðis kirkjunnar að kirkjuþing ákveði reglur um hvernig fara skuli með þessi mál.

Í öðru lagi er í 3. gr. frumvarpsins lagt til að ákvæði um tiltekin verkefni biskupafundar sem fram koma í 19. gr. laganna verði fellt brott í samræmi við þann tilgang laganna að fækka lagalegum fyrirmælum og treysta kirkjuþingi fyrir þeim verkefnum með setningu starfsreglna. Kirkjuþingi er auk þess falið samkvæmt 50. gr. laganna að setja starfsreglur um þau sömu verkefni, þ.e. skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma, en biskupafundur hefur hingað til gert tillögur um þessi mál til kirkjuþings.

Í þriðja lagi er í 4. gr. ákvæði sem lýtur að því að skýra betur stöðu kirkjuþings en þar er nú lagt til að skýrt verði kveðið á um að þingið fari með stjórn fjármála þjóðkirkjunnar auk þess sem það fer með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar nema lög mæli á annan veg.

Í fjórða og síðasta lagi eru í 5. gr. lagðar til lítils háttar breytingar á skilyrðum til skipunar eða setningar í prestsembætti. Þar á meðal er nýtt ákvæði um að kandídat í prestsembætti sé við upphaf starfa síns sóknarmaður í þjóðkirkjunni nema samkirkjulegar heimildir heimili annað. Aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu eru nauðsynlegar vegna samhengis við helstu tillögur frumvarpsins.

Ég hef nú rakið helstu efnisatriði frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og síðan til 2. umr.