143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[18:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi síðustu spurninguna. Ég ítreka að það er ekki nema sjálfsagt að fara yfir þetta hér í svörum. Flest af því sem hv. þingmaður spyr um kemur fram í greinargerð frumvarpsins en ég get alveg farið yfir það og mér að meinalausu.

Það kemur fram í athugasemdunum að sérstök nefnd var valin sem kallast milliþinganefnd og var skipuð fimm fulltrúum á kirkjuþingi og hefur hún haft með þessa endurskoðun að gera. Það kemur fram þar.

Það kemur einnig fram í greinargerðinni að ekki er talið að þetta skarist við stjórnarskrá Íslands á nokkurn hátt, enda væri ég ekki að mæla fyrir frumvarpi hér ef menn teldu að það gerði það. Síðan er spurt um tilefnið. Ég fór einnig yfir það í ræðunni minni í upphafi. Tilefnið er að það hefur verið skoðun kirkjunnar að til að auka sjálfstæði hennar og getu til að takast á við ákveðin verkefni, t.d. hagræðingu innan kirkjunnar, (Forseti hringir.) — það hefur verið ríkur áhugi á að endurskoða lögin. Þetta voru þeir þættir sem kirkjan og kirkjuþing taldi mikilvægt að fengju afgreiðslu sem fyrst þrátt fyrir að heildarendurskoðun næðist ekki.