143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[18:50]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svolítið skrýtið að fá frumvarp eins og þetta hingað inn af því að það er hálfgert innleiðingarfrumvarp. Það er af allt öðrum toga en það sem við höfum verið að tala um í dag. Það vakna ýmsar spurningar en eins og kom fram hjá ráðherranum stendur yfir heildarendurskoðun á lögunum um þjóðkirkjuna. Í frumvarpinu eru ákveðnir þættir teknir út, t.d. þetta með aganefndina og úrskurðarnefndina og maður gæti haldið fljótt á litið að áherslan væri á að einfalda þau mál, þótt maður haldi kannski að oft sé betra að vera með nefndir en aðeins einn mann til að kveða upp úrskurði í slíkum málum.

Mig langar til að spyrja ráðherrann hvernig þessi atriði eru tekin út úr heildarendurskoðuninni og farið með þau í flýtimeðferð, ef ég má orða það þannig. Var samkomulag um það innan kirkjuþings að meira lægi á þeim atriðum en öðrum? Hvernig var umræðan á kirkjuþingi um það? Það væri fróðlegt að vita.