143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[19:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vona að ég hafi skýrt það vel hvers vegna þetta er sett þarna inn, þ.e. til að lagfæra það sem ekki hafði verið hárrétt gert á sínum tíma. Ég held að þróunin í þessum málum haldi áfram í þá átt sem hún hefur verið að undanförnu. Auðvitað tekur það lengri tíma. Það eru í gildi ákveðnir samningar og ákveðið fyrirkomulag í þessari verkaskiptingu ríkis og kirkju sem byggir á gömlum lögum og ákveðnum veruleika sem við höllum okkur líka upp að, en ég held að framtíðin hljóti að fela það í sér og við hljótum öll að vera hlynnt því að hér ríki trúfrelsi og að fólk geti valið sér hvar það staðsetur sig innan þess. Ég er þeirrar skoðunar að jöfnuður eigi að gilda þarna um sem flesta og tel að við eigum að vinna út frá því.

Það er hins vegar í gangi mikil vinna í kringum þá þætti er lúta að fjárframlagi til kirkjunnar. Eins og hv. þingmaður þekkir eflaust telur kirkjan að hún hafi verið nokkuð hlunnfarin á undanförnum árum miðað við þá samninga sem í gildi hafa verið. Það er mikilvægt að reyna að leysa það mál í sátt en það er líka mikilvægt að tryggja að sem best sátt ríki um starfsemi sem flestra lífsskoðunarfélaga og að menn hafi frelsi í þeim efnum eins og öðrum.