143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[19:02]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um þetta frumvarp þótt hér sé auðvitað um að ræða afmarkaða breytingu á gildandi lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Fyrst vil ég víkja að þeirri sérstöku stöðu sem þingið er í við löggjöf á þessu sviði vegna hins ríka sjálfstæðis þjóðkirkjunnar samkvæmt gildandi lögum, en því er oft gleymt í almennri umræðu hversu ríkt sjálfstæði þjóðkirkjunnar er samkvæmt lögunum í dag. Það er í reynd þannig að þjóðkirkjan hefur fullnaðarvald um sín innri mál og er mikilvægt að þannig verði áfram.

Það leiðir til þeirrar stöðu sem við erum í í dag, sem ekkert ósvipuð þeirri stöðu sem Alþingi er í gagnvart innleiðingu EES-skjala, þ.e. frumvörpin berast okkur úr innanríkisráðuneytinu og fela í sér breytingar á lögunum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar og við innleiðum með áþekkum hætti löggjöf þar sem efnisákvörðunin hefur verið tekin annars staðar. Ákvörðun um breytingu á lögunum hefur verið tekin á vettvangi kirkjuþings.

Ég vil fyrst segja að ég held að það sé mjög mikilvægt að byggja áfram á því ríka sjálfstæði þjóðkirkjunnar sem tekist hefur að þróa á síðustu árum og ég tel að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar haustið 2012 hafi sýnt mjög skýran vilja þjóðarinnar til samstöðu um þjóðkirkju og það sé hlutverk okkar að tryggja áframhaldandi farsæla sambúð þjóðkirkju og þjóðar um ókomin ár. En þó að Alþingi hafi ekki endurmat á efnisinntaki þeirra ákvarðana sem kirkjuþing tekur í einstökum tilvikum þá er það auðvitað ekki þannig að löggjafarvald Alþingis verði nokkru sinni einvörðungu formlegt og við þurfum ávallt að hafa efnislegt mat á þeim ákvörðunum sem lagðar eru fyrir Alþingi sem frumvarp til laga um breytingu á stöðu þjóðkirkjunnar þó svo að við viðurkennum til fulls sjálfstæði kirkjunnar til að ráða sínum innri málum. Ég vil þess vegna taka undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur í andsvari hér áðan að það er mikilvægt að fá ríkari rökstuðning í greinargerð fyrir aðdraganda lagabreytinga af þessum toga þannig að við á Alþingi Íslendinga vitum til fulls með hvaða hætti frumvarp sem þetta ber að og hvaða efnisrök liggja þar að baki.

Ég ætla að ræða stuttlega tvo þætti þessa máls sem mér þykja sérstaklega umræðuverðir. Annars vegar er gert ráð fyrir að felld verði úr gildandi lögum ákvæði um úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd og færð fyrir því allítarleg og sannfærandi rök að mínu viti, þar með talið að komið hafi upp ágreiningur milli úrskurðarnefndar og áfrýjunarnefndar um hvort mál heyri undir þær eða ekki. Þá eru ógöngurnar orðnar fullkomnar í stjórnskipulagi ef ekki er einhugur milli úrskurðarnefndar og áfrýjunarnefndar um umfang og verksvið nefndanna. Ég held líka að full ástæða sé til að halda áfram þeirri þróun að styðja við agavald biskups innan þjóðkirkjunnar eins og gert er ráð fyrir að hér með því að fela honum þetta vald.

Hin meginbreytingin er að fela ákvörðun um stjórn fjármála þjóðkirkjunnar kirkjuþingi með ótvíræðum hætti. Það er breyting frá því sem nú er, eða eins og segir í umfjöllun um 4. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Að fara með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar felur í raun í sér að stjórn fjármála sé einnig eitt af ábyrgðarsviðum þingsins.“

En hér er lagt til að það verði lögfest til að taka af allan vafa um að valdið sé hjá kirkjuþingi. Þingið getur þannig ákveðið skiptingu þess fjár sem til ráðstöfunar er á hverjum tíma. Í dag eru ákvarðanir um ráðstöfun fjár til einstakra verkefna á hendi kirkjuráðs. Rétt þykir að skerpa að þessu leyti skil milli kirkjuþings og kirkjuráðs.

Mér finnst skorta nokkuð á efnisrök fyrir þessari breytingu í frumvarpinu. Nú kann að vera að einhver ástæða fyrir því að taka kirkjuráð út úr lögum og breyta valdi þess gagnvart ráðstöfun fjár og fela það kirkjuþingi og ég get svo sem skilið að slík rök séu fyrir hendi, en mér þykir rýrt að við fáum ekki ríkari efnislegan rökstuðning um breytingu af þessum toga en er þó að finna í þessu frumvarpi.

Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða um efni frumvarpsins og vil ekki lengja umræðuna að óþörfu en ítreka í lokin að það er auðvitað tilhlökkunarefni að fá til meðferðar á Alþingi Íslendinga ný þjóðkirkjulög eins og að er stefnt og stefnt hefur verið að af hálfu þjóðkirkjunnar alveg frá því að endurskoðunarferlið hófst árið 2007. Það er tilhlökkunarefni og mikilvægt að segja það skýrt — í það minnsta er það vilji þess sem hér sendur að tryggja áfram farsæla samferð þjóðkirkju og þjóðar og lúta að því leyti þeirri leiðsögn sem fékkst í þjóðaratkvæðagreiðslunni haustið 2012 með skýrum hætti.