143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[19:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður nefndi þjóðaratkvæðagreiðsluna sem farið var í vegna stjórnarskrármálsins á sínum tíma. Nú hefur mér alltaf þótt spurningin sem þá var lögð fram frekar villandi, kannski vegna þess að ég er af þeirri kynslóð sem þekkir aðeins meira en mína eigin stjórnarskrá og þótti spurningin villandi af þeim sökum. Þá var spurt hvort fólk vildi hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá. Miði maður alfarið út frá íslenskum veruleika og íslenskri stjórnarskrá þá er það í sjálfu sér rökrétt, alla vega út frá lagalegu sjónarmiði. En bandaríska stjórnarskráin er með klausu um þjóðkirkju. Ég er mjög hlynntur því að hafa samsvarandi klausu um þjóðkirkju í íslenskri stjórnarskrá, nema sú klausa þvertekur fyrir að það megi vera þjóðkirkja eða annað slíkt.

En hv. þingmaður virðist styðja það að þjóðkirkjan verði til staðar um ókomna tíð eins og hv. þingmaður nefndi það. Ég velti svolítið fyrir mér hvað hv. þingmanni finnst um stöðu þjóðkirkjunnar miðað við önnur trúfélög, því það er eitt að hafa þjóðkirkju. Gott og vel að þjóðin fái að kjósa um það. En þegar kemur að jafnræði gagnvart lögum, jafnræði þegnanna gagnvart yfirvöldum þá er það ekki háð lýðræði. Þjóðin mætti til dæmis ekki kjósa um það að svartir menn þyrftu að borga hærri skatta en hvítir menn, eða kristnir menn þyrftu að borga hærri skatta en múslimar eða eitthvað því um líkt. Það væri ekki í samræmi við lýðræðisgildi. Ég geri mér grein fyrir að tilvist þjóðkirkjunnar þarf ekki endilega að varða eitthvert slíkt misrétti en þó er klárt, eins og við sjáum af lögunum og því sem hér er lagt til, að það er ekki fullt samræmi og ekki er fullt jafnrétti milli lífsskoðunarfélaga og trúfélaga. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður treysti sér til að styðja kannski í framtíðinni einhverjar aðgerðir sem mundu miða að því að jafna stöðu trúfélaga og lífsskoðunarfélaga.