143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[19:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef verið áhugamaður um að auka jafnræði trúfélaga og hef stutt aðgerðir í þá veru og mun án efa halda áfram að gera það. Það breytir ekki þeirri staðreynd að í fyrirkomulaginu sem þjóðkirkjan byggir á og í hugmyndinni um þjóðkirkju felst að ríkisvaldið styður við kirkjuskipanina en fær í staðinn þjónustu sem er almenn, stendur öllum til boða og er veitt óháð aðild að þjóðkirkjunni, almannaþjónustu þar af leiðandi í besta skilningi þess orðs. Þjónar kirkjunnar sinna sálgæslu og aðstoð við fólk og spyrja ekki hvort fólk sé í þjóðkirkjunni eða ekki áður en sú þjónusta er innt af hendi. Og það er traustasti vitnisburður um hina víðtæku og traustu samfylgd þjóðar og þjóðkirkju að enn þann dag í dag heyrir til algerra undantekninga að útfarir fari ekki fram innan þjóðkirkjunnar. Þegar við kveðjum þetta jarðlíf kjósum við að gera það með atbeina þjóðkirkjunnar, nema auðvitað þeir sem eru skráðir í önnur trúfélög. Það er athyglisvert hversu algengt og yfirgnæfandi það er að þær athafnir fari fram með atbeina þjóðkirkjunnar og þá eru ótaldar aðrar kirkjulegar athafnir. Það eru því efnisleg rök fyrir því að haga samskiptum ríkis og þjóðkirkju með öðrum hætti en samskiptum við önnur trúfélög og í því felst ekki mismunun í garð annarra trúfélaga.