143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[19:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð eiginlega að hafna því með fullri virðingu fyrir hv. þingmanni að ekki felist í því mismunun vegna þess að ef ekki væri nein mismunun gagnvart öðrum lífsskoðunarfélögum og trúfélögum þyrftum við ekki að hækka einhverja prósentu úr 11,4% upp í 14,3%, eða hvað það nú var, með þessu blessaða frumvarpi.

Hv. þingmaður nefndi að ríkisvaldið veiti þjónustu óháð aðild. Ég vænti þess varla að hv. þingmaður mundi þar af leiðandi taka gild þau rök að ef lífsskoðunarfélagið mitt, sem ég skal láta ógert að nefna, veitti þjónustu óháð trúarskoðunum og óháð aðild, að það fengi þá að vera í sömu stöðu og þjóðkirkjan. Ég held að hv. þingmaður mundi hafna því og ég get svo svarið að ég held að ég mundi hafna því sjálfur vegna þess að það er hreinlega ekki hægt af því að þjóðkirkjan byggir á sögunni. Þjóðkirkjan byggir ekki raunverulega á því að meiri hluti þjóðarinnar sé kristinn heldur vegna þess að kristnin hefur verið yfirvaldið á Íslandi í mjög langan tíma, þar til tiltölulega nýlega ef við lítum yfir alla mannkynssöguna. En það er líka dæmigert og það er þess vegna sem ég lít á það sem hluta af lýðræðisþróun að losa okkur við þjóðkirkjuna og reyndar öll trúaröfl úr stjórnmálum alfarið. En nú veit ég að við hv. þingmaður erum kannski ósammála um það.

En þá langar mig að spyrja hv. þingmann með hliðsjón af því sem hann sagði um að þjóðkirkjan veiti þjónustu óháð aðild, hann taldi einnig upp aðra þjónustu sem þjóðkirkjan veitir ýmist gegn gjaldi eður ei. Mundi hv. þingmaður telja það sanngjarnt að önnur trú- og lífsskoðunarfélög, sem sinntu sama hlutverki á sömu forsendum og gerðu það óháð aðild og óháð trúarskoðun viðskiptavina sinna eða skjólstæðinga, ættu að fá sömu vernd og þjóðkirkjan samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands?