143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[19:19]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er að hugsa um að leyfa mér að halda mig við 21. öldina þótt hv. þm. Árni Páll Árnason hafi farið aftur á þá 13. í skýringum sínum áðan. Ég veit að hv. þingmaður er kunnáttumaður um starfsemi þjóðkirkjunnar og ég rek augun í 2. gr. frumvarpsins, sem gengur síðan aftur í raun og veru í 9. gr. Þær greinar fjalla um úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd samkvæmt 12. og 13. gr. gildandi laga og er gert ráð fyrir því að þær verði felldar brott. Hér því gert ráð fyrir að ekki verði lengur hægt að bera ágreining sem rís á kirkjulegum vettvangi undir umræddar úrskurðarnefndir en á sama tíma er verið að ræða um agavald biskups.

Mig langar að inna hv. þingmann eftir því hvaða skilning hann leggur í þessi ákvæði, hvaða þýðingu það kann að hafa m.a. að því er varðar réttarstöðu þeirra sem hingað til hafa átt eða getað átt undir úrskurðar- og áfrýjunarnefndir að sækja með mál sín. Þýðir þetta að þeir séu þá alfarið undir agavaldi biskups, eins og hér er verið að tala um og hv. þingmaður nefndi, og eiga þeir t.d. engan áfrýjunarmöguleika eða áfrýjunarrétt sem er kannski almenna reglan í stjórnsýslu okkar, að menn geti áfrýjað úrskurðum sem þá varða?