143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[19:38]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans um málið. Bersýnilegt er að hann hefur á langri þingreynslu kynnt sér málefni þjóðkirkjunnar vel og er vel heima í því lagaumhverfi. Ég hnaut þó um eitt sérstaklega, kannski tvennt. Fyrst það sem hann segir að sé að hans mati aðalgreinin, þ.e. 4. gr., og verið sé að greina betur á milli framkvæmdarvaldsins og kirkjuþingsins.

Nú er það svo að hér er um að ræða breytingu á 1. mgr. 20. gr. Þar segir einfaldlega í dag, með leyfi forseta:

„Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka.“

Í greininni eins og hún kemur núna, með leyfi forseta:

„Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, þ.m.t. stjórn fjármála, nema lög mæli á annan veg.“

Í greinargerðinni er sagt að þetta sé bara orðalagsbreyting en ekki merkingarleg breyting. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Hvar sér hann þá miklu merkingarlegu breytingu í frumvarpinu þegar greinargerðin segir að þetta sé í raun og veru bara orðalagsbreyting? Vegna þess að tekið hefur verið fram að kirkjuþing hafi farið með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar. Hér er skotið inn „þ.m.t. stjórn fjármála, nema lög mæli á annan veg“. En í greinargerðinni er sagt að það að fara með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar feli í raun í sér stjórn fjármála. Það sé í raun ekki merkingarlegur munur á þessu heldur fyrst og fremst orðalagsmunur.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvernig les hann nákvæmlega þetta út úr þessari grein? Ég geymi mér aðra fyrirspurn þar til í síðara andsvari.