143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði að umtalsefni áðan, nýjar tillögur Orkustofnunar um 91 nýjan virkjunarkost. Ég beini orðum mínum til hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, formanns umhverfis- og samgöngunefndar. Við munum á eftir ræða náttúruverndarlög þar sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson lagði gríðarmikið af mörkum til að koma því máli í samkomulagsferli og úr þeim átakafarvegi sem það var í.

Ég upplifi þetta útspil opinberrar stofnunar, Orkustofnunar, þar sem settar eru fram hugmyndir um 91 virkjunarkost, þar af 27 nýja — af hinum sem ekki eru nýir er umtalsverður fjöldi virkjunarkosta sem er búið að flokka í verndarflokk, hvort sem það snýst um Torfajökulssvæðið sem jafnvel stendur til að koma á skrá hjá UNESCO eða Jökulsá á Fjöllum sem á að veita yfir í Jökulsá á Dal. Hofsá í Vopnafirði hefur verið nefnd en hún er á náttúruminjaskrá. Við getum líka nefnt jarðvarmasvæði eins og jaðar Torfajökuls sem kemur þarna nýr inn.

Þetta vekur mér spurningar um það ferli sem við höfum fylgt. Hvernig á að vera hægt að treysta á það þegar svæði eru ýmist friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum eða flokkuð í verndarflokk af faghópum en dúkka nánast örfáum mánuðum síðar upp aftur sem nýir og vænlegir virkjunarkostir? Mig langar að spyrja hv. þingmann, eftir þá vinnu sem við höfum átt saman í kringum þessi mál í hv. umhverfisnefnd, um mat hans á þessu ferli. Er það vænlegt til að ná sátt um þessi mál í samfélaginu að hér séu stöðugt teknir upp á borð kostir sem áður hefur náðst sátt um að friða eða vernda og þeir settir aftur inn til umræðu sem virkjunarkostir? Hvert er mat hv. þingmanns á þessu? Hvernig eigum við að komast út úr þessum átakafarvegi?