143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og fagna því að hún hafi verið eilítið yfirvegaðri í sinni nálgun en samþingmaður hennar úr sama flokki sem kom hér fyrstur og mælti.

Það er rétt að það þarf að fara yfir þá verkferla sem eru í gangi. Ég vil benda hv. þingmönnum á að þeir eru samkvæmt lögum um Orkustofnun, nr. 87/2003, og svo er einnig að finna lagaákvæði um þessa verkferla og hlutverk Orkustofnunar í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011. Ef þingmenn hefðu haft raunverulegan áhuga á að breyta þessu ferli hefði þeim verið það í lófa lagið á síðasta kjörtímabili.

Gott og vel, staðan er sú að Orkustofnun er einfaldlega að framfylgja sínu lögbundna hlutverki. Að sjálfsögðu eru allir nýtingarkostir uppi á borðum hvað sem okkur finnst um þá. Við skulum sjá hvað verkefnisstjórnin hefur fram að færa. Það er hennar að ákveða hvort eitthvað af þessu fer í verndar-, nýtingar- eða biðflokk.

Hv. þingmaður hefur óskað eftir umræðu um þetta mál í umhverfis- og samgöngunefnd og ég tel það gott og mæli jafnframt með því að við höfum þann fund opinn fjölmiðlum, eins og við höfum jafnan gert. Það hefur yfirleitt gert það að verkum að umræða sem byrjar hástemmd með stórum yfirlýsingum jafnar sig þegar menn komast að raun um verklagið og þau lög sem farið er eftir.