143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun munu hafa verið til umfjöllunar tillögur um skuldaleiðréttingar. Skuldaleiðréttingar eru gagnslitlar ef ekki fylgir afnám verðtryggingar sem lofað var. Á þetta hefur Vilhjálmur Birgisson bent, og bendir á að liðlega 4% verðbólga muni gera að engu alla 72 milljarða skuldaleiðréttinguna. Framkvæmd hennar er hugsuð þannig að fyrst hækka lánin með verðbótum og vöxtum um kannski 10% frá kosningum og fram á næsta haust. Þá eru þau lækkuð um 2–3%. Svo hækka lánin um 7, 8 eða 9%. Þá eru þau lækkuð aftur um 2–3% og þannig koll af kolli, hækkað og lækkað á víxl.

Þannig verður höfuðstóllinn væntanlega alltaf hærri en hann var þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur skildi við. Það er höfuðstólslækkunin um 20% sem lofað var í kosningum. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af þessu og kalla áfram eftir því að staðið verði við afnám verðtryggingarinnar sem forsætisráðherra sagði að væri einfalt mál og Framsóknarflokkurinn lofaði.

Sömuleiðis er ástæða til að hafa áhyggjur af þeim sem eru í greiðsluvanda, því fólki sem fór í gegnum 110%-leiðina og Framsóknarflokkurinn talaði mikið um fyrir kosningar, fólkið sem var aftur lent í vanda af því að lánin höfðu hækkað svo mikið og af því að 110%-leiðin var svo ósanngjörn.

Og hvernig á að fara með það? Það á að draga 110% aðstoðina frá skuldaleiðréttingunni þannig að flestir þeirra fá enga skuldaleiðréttingu í aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Þeir sem eru í mestu erfiðleikunum eiga ekki að fá stuðning úr þessum almennu aðgerðum.

Þá hefði það nýst, lyklafrumvarpið sem báðir stjórnarflokkarnir lofuðu. Nú er að verða liðið eitt ár frá kosningum til Alþingis og á Alþingi er ekki komið fram neitt lyklafrumvarp. (Gripið fram í.) Það frumvarp hefur verið rætt um frá árinu 2008 og enn bólar ekkert á því. (Forseti hringir.)

Ég kalla eftir afnámi verðtryggingar og lyklafrumvarpi sem lofað var. (Gripið fram í: Samfylkingin …) (HöskÞ: … hafnað á síðasta kjörtímabili.)