143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Forseti. Í gær var grenjandi rigning. Ég væri ekki að rifja veðurfar gærdagsins upp hér og nú nema vegna þess að ég átti erindi við þjóðskjalavörð í Þjóðskjalasafninu. Hann fór með mér um húsnæði safnsins, sali með skjalaskápum í fyrrum húsnæði Mjólkursamsölunnar. Hluti hússins er í þokkalegu lagi þó að bæta þurfi aðstæður þannig að raki og hitastig haldist stöðugt og hagstætt fyrir varðveislu skjalanna.

Annar hluti hússins er hins vegar hræðilegur og þarfnast lagfæringar. Við gengum um hripleka ganga niður í rými fullt af skjölum sem enn hafa ekki verið flokkuð og ekkert pláss er fyrir meðan húsnæðið hefur ekki verið lagfært.

Í stofnunum landsins eru tugir hillukílómetra af skjölum sem bíða þess að fá viðtökur í Þjóðskjalasafninu. Hættan er sú að skjölum hafi verið og verði hent ef safnið verður ekki í stakk búið til að taka við þeim. Þar með glatast verðmætar heimildir og efniviður í skráða sögu þjóðarinnar.

Margt kom upp í hugann við þessa göngu um rakaskemmt húsnæðið þegar ég klofaði yfir pollana á göngunum og hélt mér fast í handriðin niður blautan stigann, enda tröppurnar sleipar af grænni slikju lífvera sem lifa góðu lífi í rakanum.

Lekinn var ekki að byrja í ár eða í fyrra. Hann hefur verið til staðar svo árum skiptir. Góðærið svokallaða nýttist ekki Þjóðskjalasafninu eða mikilvægu hlutverki þess. Áætlun er uppi um lagfæringu á hluta hússins og ég fagna því. Hins vegar þarf að gera áætlun til framtíðar um húsnæðið allt og viðbyggingu. Nú þegar erum við 20 árum á eftir frændþjóðum okkar í þessum málaflokki.

Einnig er mikilvægt að frumvarp um breytingar á lögum um Þjóðskjalasafnið sem nú er til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd fái góða meðferð og afgreiðslu sem fyrst.