143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hnaut um grein í Morgunblaðinu í morgun eftir fyrrverandi formann Vélstjórafélags Íslands. Fyrirsögnin var: „Er aflabrestur ekki lengur frétt?“

Það sem vekur athygli greinarhöfundar, og tek ég heils hugar undir með honum, er að ekki fer mikið fyrir því í fjölmiðlum að á loðnuvertíð sem nú er lokið kom á land 75% minni afli en á síðustu vertíð, þ.e. sem nemur 231 þús. tonnum.

Fjölmiðlamönnum er tamt að gera mikið úr launum sjómanna á loðnuskipum þegar vel gengur og þeir reikna mjög nákvæmlega hver hluturinn er á dag þegar stutt er að sækja og loðnan þétt en ég sakna þess að ekki sé gerð frétt úr því þegar laun þeirra skerðast um 75%.

Þegar ég var á loðnu um og fyrir 1980 var loðnan kölluð fjölmiðlafiskurinn vegna þess að þá sást í dagblöðum hvar bátar lönduðu og hve miklu þeir lönduðu. Reyndar töluðum við sjómenn um blaðamannaformúluna þegar blaðamenn reiknuðu árstekjur sjómanna út frá bestu dögunum og umreiknuðu yfir á árstekjur. (ÖS: Ekki á Þjóðviljanum.) Ekki þarf að fjölyrða um útkomuna.

Ég hef spurt mig undanfarna daga hvort verkfalli undirmanna á Herjólfi sé lokið þegar ég sé enga frétt um það í fjölmiðlum. Það er undarlegt að ekki skuli vera fleiri og stærri fréttir af því í fjölmiðlum þegar samgöngumál stærstu verstöðvar landsins eru í molum um hávertíð með tilheyrandi kostnaði, tekjutapi og fyrirhöfn vinnandi fólks og fyrirtækja.

Ef stofnæðar út úr Reykjavík væru lokaðar um nætur og helgar er ég hræddur um að stórar fyrirsagnir væru í fjölmiðlum. Það eru engir aðrir en fjölmiðlar sem geta brúað bilið milli landsbyggðar og höfuðborgar og ég sá í Morgunblaðinu (Forseti hringir.) að það ætlar að leggja meiri áherslu á fréttir af landsbyggðinni. Ég hvet fleiri fjölmiðla (Forseti hringir.) til að gera það sama.