143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

menningarsamningar.

[14:17]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til þess að upplýsa þingheim um stöðu menningarsamninga eins og staðan blasir við í dag. Menningarsamningar við landshluta hafa verið við lýði allt frá árinu 2001. Þegar samningur við Austurland var gerður frá árinu 2007 höfðu verið í gildi samningar við öll sjö landshlutasamtökin utan höfuðborgarsvæðisins. Um síðastliðin áramót féllu menningarsamningarnir úr gildi og skapaðist nokkur óvissa um framtíð þeirra, en henni hefur nú verið eytt og nýir samningar sendir landshlutasamtökunum til undirritunar.

Í síðustu samningum voru samningsaðilar menningarsamninga mennta- og menningarmálaráðuneyti og atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti vegna ferðamála annars vegar og landshlutasamtök sveitarfélaga fyrir hönd sveitarfélaga á hverjum stað hins vegar. Í þeim samningum sem nú bíða undirritunar er sú breyting orðin að samningsaðilar eru einungis mennta- og menningarmálaráðuneytið og landshlutasamtökin. Þessir nýju samningar ná ekki lengur yfir menningartengda ferðaþjónustu heldur er meiri áhersla nú lögð á nýsköpun og listir. Þessi þróun skýrir að mestum hluta þá töf sem orðið hefur á málinu.

Fyrirtækinu Capacent var falið að gera úttekt á framkvæmd menningarsamninga fyrir tímabilið 2011–2013. Skýrslan sýnir fram á, með leyfi forseta, „að víðtæk sátt sé á milli samningsaðila um framkvæmd samninganna og að það sé farsælt að stýra styrkveitingum ríkis og sveitarfélaga til menningarstarfs í einn farveg“ og að árangurinn sé umtalsverður.

Það sem ég hef orðið áskynja um eftir að ég tók við málaflokknum er að menningarsamningar hafa skipt miklu máli, einnig á sveitarstjórnarstiginu en sveitarfélögin greiða jafnframt 40% framlag á móti ríkinu. Það hefur hins vegar verið vandkvæðum bundið að fá sameiginlegan skilning landshlutasamtakanna á skiptingu fjárveitinga ríkisins. Þess ber að geta að aukning varð á framlögum til allra svæða þegar stofn- og rekstrarstyrkjum var komið fyrir á vettvangi menningarráða á árinu 2012 í kjölfar breytinga á styrkveitingum fjárlaganefndar.

Nú er staðan sú að þeir fjármunir sem eyrnamerktir eru til menningarsamninga á fjárlögum ársins 2014 af liðum mennta- og menningarmálaráðuneytisins eru greiddir til menningarráða samkvæmt reiknireglu sem gilti í síðustu samningum en með 10% flötum niðurskurði sem er niðurskurðurinn milli ára á fjárlögum til þessa fjárlagaliðar. Framlag ráðuneytisins í ár nemur því 207,4 millj. kr. sem er eins og málshefjandi benti á lækkun um 23 milljónir frá síðasta ári.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um hversu mörg störf er áætlað að glatist við þennan niðurskurð er því til að svara að ekki er hægt að áætla þann fjölda með neinni vissu þar sem ekki liggur endanlega fyrir hvernig fénu verður úthlutað.

Spurt er um forgangsröðun menningarráða. Þá er það til að taka, virðulegi forseti, að allt frá upphafi samstarfsins hefur það verið á hendi menningarráða að móta stefnu og úthlutunarreglur í menningarmálum fyrir sín svæði. Ráðuneytið hefur ekki komið þar að nema að því leyti sem samningar segja til um. Meginmarkmið samninganna á síðasta tímabili var að efla samstarf á sviði menningarmála á svæðinu, stuðla að nýsköpun og fjölbreytni í menningar- og menningartengdri ferðaþjónustu, fjölga atvinnutækifærum og að menningarstarfsemi styddi við ferðaþjónustu.

Í ljósi þessarar umræðu vil ég jafnframt geta þess að ríkisstjórnin er með til umræðu að efla sóknaráætlun, einhvers konar landshlutaáætlun. Ég vil taka það fram að vilji manna er að stuðningur við listir og menningu innan þess nýja kerfis sem verið er að vinna að verði skýrt afmarkaður og á forræði og ábyrgð míns ráðuneytis, m.a. með því að stuðla að framlögum til málaflokksins á fjárlögum við að móta reiknireglu, samningagerð og eftirlit.

Reynsla undanfarinna ára af framkvæmd og fyrirkomulagi menningarsamninganna er farsæl. Ég tel þó að styrkt og bætt umgjörð hljóti að verða til þess að byggja enn frekar undir tækifæri til að styrkja menningarmál um landið til lengri tíma litið. Styrkari landshlutasamtök og meira aðgengi á stoðþjónustu á þeim vettvangi ætti að gera menningarfulltrúum og menningarráðum frekar kleift að einbeita sér betur að grasrótarstarfi á sviði menningarmála í hverjum landshluta til framtíðar litið.

Ég hef hins vegar tekið undir þau sjónarmið sem hafa komið fram í aðdraganda samninganna að ekki eigi að binda það í samningum að menningarfulltrúi eigi að vera starfsmaður menningarráða heldur eigi sú ákvörðun að vera á forræði landshlutasamtakanna sjálfra.

Um leið og ég er talsmaður þess að samningar eiga að vera í stöðugri þróun er það skoðun mín og margra annarra að menningarsamningarnir séu dæmi um vel heppnaða stjórnvaldsaðgerð þar sem tekist hefur að draga úr miðstýringu, skapa ábyrgt og svæðisbundið stjórnvald og efla um leið þá málaflokka sem um ræðir.