143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

menningarsamningar.

[14:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er von að mönnum gangi illa að skilja það að verkefni sem allir ljúka lofsorði á og hrósa upp í hástert, þar með talinn ráðherrann sjálfur, skuli vera skorið sérstaklega niður um 10% í fjárlögum ársins. Það er skrýtið þegar menn höfðu frekar gert sér vonir um að tími aðhalds á þessu sviði væri að baki og menn gætu farið að gefa í.

Ég var svo lánsamur að geta verið viðstaddur úthlutun líklega þriggja verkefnastyrkja úr menningarsamningum á síðastliðnu ári, í Ólafsfirði fyrir svæði Eyþings, í Stykkishólmi fyrir Vesturland og á Djúpavogi fyrir Austurland, enda var um samstarfsverkefni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins að ræða. Það var sérlega ánægjulegt að vera viðstaddur þessa atburði og það sannfærði mig enn betur en ella um það að veiting þessara styrkja, þó lágar fjárhæðir séu, til margvíslegra og mjög fjölbreyttra verkefna vítt og breitt um svæðin er eitt það allra besta sem við getum gert til að hlúa að lifandi og sjálfsprottinni menningu og starfsemi úr grasrótinni á þessum svæðum.

10% niðurskurður er auðvitað mjög tilfinnanlegur, en það bætti ekki úr skák þegar hringlið hófst í ráðuneytinu um að breyta úthlutunarreglum og ofan í kaupin kom upp óvissa um hvort atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið yrði áfram aðili að samstarfinu með þá fjármuni sem þar er væntanlega enn að finna í sjóðum sem ætlaðir eru til að styrkja menningartengda ferðaþjónustu. Ég tel það hrapalleg mistök að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fari út úr þessu samstarfi. Það var vel heppnað og með því var forræðið á þessum málum í heild fært til svæðanna.

Þá vaknar auðvitað spurningin: Ætlar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, væntanlega iðnaðar- og viðskiptahluti þess, að úthluta núna þessum aurum sínum upp á gamla móðinn, án samráðs við heimamenn? Það væri mikil afturför og mundi veikja verkefnin í heild sinni og samlegðina sem af því er fólgin að gera þetta á skipulagðan hátt.

Ég tel þessa framgöngu (Forseti hringir.) hæstv. ríkisstjórnar mjög gagnrýnisverða, (Forseti hringir.) sleifarlag — ekkert annað en sleifarlag, hæstv. menntamálaráðherra.